*

Hitt og þetta 6. janúar 2014

Sex atriði sem góður yfirmaður þarf að hafa í huga

Þessa grein ættu allir yfirmenn að lesa. Alla vega þeir sem vilja skara fram úr í starfi sínu.

Góður yfirmaður er alveg jafn mikilvægur og góðir starfsmenn þegar kemur að velgengni fyrirtækja.

Í áhugaverðri samantekt á Forbes.com eru tekin saman þau sex atriði sem yfirmaður þarf að hafa í huga vilji hann vera góður stjórnandi. Þar er tekið fram að þó að fas og hylli séu mikilvæg þá skipta tæknilegu atriðin, sem yfirmaðurinn hugar að á hverjum degi, sköpum. Skoðum atriðin sex:

1. Skoðaðu allt með opnum huga. Bestu yfirmennirnir eru sveigjanlegir, búa yfir aðlögunarhæfni, eru í góðum tengslum við umhverfi sitt og eru alltaf að leita að góðum tækifærum. Hlustaðu vel. Stífni er algjört bannorð og hugarfarið „svona hefur þetta alltaf verið gert hér” vinnur gegn öllum framförum.

2. Að búast við því besta. Gerðu miklar kröfur, en þó ekki óraunhæfar, til starfsfólksins. Bestu stjórnendurnir eru ekki þeir hörðustu eða ljúfustu heldur þeir sem ná mestu út úr starfsfólki sínu. Settu sömu kröfur á þig sjálfa(n) og þú setur á starfsfólkið.

3. Fókus. Vertu viss um að starfsfólkið viti hvaða atriði það þarf að leggja áherslu á til að ná sem mestum árangri.

4. Farðu vel með tíma þinn. Á venjulegum degi eru margir sem vilja fá tíma með yfirmanninum og oft er verið að toga hann í mismunandi áttir. Hér þarf að forgangsraða og fara vel með tímann og ekki leyfa öðrum að eyða honum í vitleysu.

5. Samskipti. Vertu í samskiptum við starfsfólkið. Viðbrögð frá yfirmanni þegar verk eru vel eða illa unnin eru nauðsynleg. Þó að þú getir ekki verið á staðnum allan daginn vertu í síma- eða tölvupóstsambandi.

6. Ekki forðast átök. Á vinnustöðum koma stöðugt upp ágreiningar og átök. Auðvelt er fyrir yfirmann að horfa í hina áttina til að forðast átök. En slíkt er ekki farsælt til lengdar. Góður stjórnandi skiptir sér af og segir sína skoðun og leggur línurnar þegar við á. Starfsfólk ber meiri virðingu fyrir slíkum stjórnanda en þeim sem forðast átök.