*

Hitt og þetta 15. október 2013

Sex leiðir til að ná frama í vinnunni

Hugsaðu um liðsheildina, vertu frumleg(ur) og þú sjálf(ur). Þetta eru þættir sem hjálpa fólki að ná árangri á vinnustaðnum.

Það er hægt að láta taka eftir sér í vinnunni og ná frama án þess að vera of augljós í montinu og gortinu. Lykillinn er að vekja einmitt ekki of mikla athygli á eigin ágæti heldur einblína frekar á samstarfsfólkið. Á Forbes.com er ágætis grein um hvernig er vænlegast að ná árangri og frama í vinnunni: 

Hafðu áhrif svo lítið beri á: Vinnustaðir skiptast oft í tvo hópa: Háværa og óskipulagða fólkið og síðan þau sem drífa hópinn áfram og hafa hvetjandi áhrif án þess að mikið beri á. Þessi síðari hópur er oftast beðinn um að vera með í mikilvægum verkefnum því yfirmenn sjá að þetta er fólkið skiptir máli.

Ekki einblína um of á starfslýsinguna: Ekki hengja þig í starfslýsinguna. Hugsaðu út fyrir rammann og horfðu á verkefni í vinnunni út frá fleiri en einu sjónarhorni. Yfirmenn fíla slíkt hugarfar og velja frekar þannig starfsmenn í yfirmannsstöður.

Hjálpaðu öðrum að ná frama: Þegar starfsmaður leggur sig fram við að hjálpa kollegum að ná árangri og fá umbun þá þykir það augljóst merki um sjálfstraust og mikla leiðtogahæfileika.

Forðastu innanhúspólitík: Ekki flækja þig um of í innanhússátök og innanhússpólitík. Það er fínt að vera meðvitaður um dýnamikina á vinnustaðnum en ekki skipta þér of mikið af átökum innan fyrirtækisins. Einbeittu þér frekar að þínum árangri og árangri samstarfsfélaga þinna.

Frumlegheit: Ekki detta í þægileg hjólför og fara á sjálfstýringu í vinnunni. Ef fólk langar til að ná árangri er nauðsynlegt að hrista upp í gömlum hugmyndum og vera gagnrýnin á uppbyggilegan hátt, með liðsheildina í huga.

Vertu þú sjálf(ur): Gamla góða klisjan um að vera þú sjálf(ur) á vel við hér og er í raun rauði þráðurinn í þessu öllu saman. Þegar fólki líður vel og hvílir vel í sjálfu sér þá er vinnuframlagið best. Og árangurinn eftir því.

Stikkorð: Forbes.com  • Frami  • Vinnustaðurinn