*

Sport & peningar 18. júní 2016

Sex sem gætu orðið stjörnur á EM

Pólverjinn Milik á framtíðina fyrir sér en það eiga einnig aðrir eins og Hakan Calhanoglu eða Joao Mario.

Alexander Freyr Einarsso

EM 2016 í knattspyrnu stendur nú yfir í Frakklandi þar sem bestu landslið Evrópu etja kappi. Þó svo að stærstu knattspyrnudeildir álfunnar séu í sumarfríi á meðan Evrópumótinu stendur fer fram umfangsmikil vinna á bakvið tjöldin þar sem félögin freista þess að styrkja sig fyrir komandi átök á næstu leiktíð. Spjótin beinast að mörgum leikmönnum sem spila á EM 2016, en oft er litið á stórmót sem tækifæri til að skjótast upp á stjörnuhimininn og tryggja sér félagaskipi til stærstu liða Evrópu. Hér eru sjö leikmenn sem gætu gert slíkt í sumar.

Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland)

Íslendingar vita nákvæmlega upp á hvað Gylfi hefur að bjóða, enda er hann skærasta stjarna íslenska landsliðsins. Miðjumaðurinn knái var einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar árið 2016 fram að lokum tímabils, en hann skoraði hann níu mörk eftir áramót og átti stóran þátt í því að Swansea hélt sæti sínu í deildinni. Alls skoraði hann 11 mörk á tímabilinu og gerðu einungis tveir miðjumenn í ensku deildinni betur. Gylfi er þekkt nafn innan fótboltaheimsins og það renna sjálfsagt mörg félög hýru auga til þessa öfluga miðjumanns. Ef hann spilar jafn vel á EM og hann hefur undanfarin ár gert með íslenska landsliðinu mun hann vekja enn meiri áhuga meðal þeirra stærstu. Augu alheimsins verða á Íslandi og þ.a.l. Gylfa eftir gott jafntefli Íslands gegn Portúgal í fyrsta leik.

Dimitri Payet (Frakkland)

Payet átti fínasta fyrsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni með West Ham eftir að hafa komið til félagsins frá Marseille. Payet hafði í gegnum tíðina flakkað mikið á milli liða í heimalandinu án þess að slá virkilega í gegn. Á Englandi fann hann sig vel og skoraði nokkur glæsileg mörk og hefur smám saman unnið sér inn stærra hlutverk í liði Frakklands. Skoraði frábært aukaspyrnumark í vináttuleik fyrr á árinu og byrjaði svo EM í heimalandinu á að skora stórkostlegt sigurmark gegn Rúmeníu í opnunarleik mótsins. Er vissulega orðinn 29 ára gamall en á skilið að fá sénsinn hjá stórliði.

Julian Draxler (Þýskaland)

Draxler hefur undanfarin ár þótt eitt mesta efni Þjóðverja en einhverra ástæðna vegna hefur hann enn ekki tekið skrefið yfir í að verða stórstjarna. Hann hefur verið fastamaður í þýska landsliðinu en einhverjum þótti það koma á óvart þegar hann gekk í raðir Wolfsburg frá Schalke síðasta sumar. Bjuggust margir við að hann myndi fara til stærra félags, en Arsenal sýndi kantmanninum mikinn áhuga á tímabili. Átti ekkert sérlega áberandi frammistöðu í fyrsta leik Þýskalands á EM gegn Úkraínu, en standi hann sig vel á mótinu gætu stærstu félög Evrópu bankað á dyrnar hjá Wolfsburg.

Joao Mario (Portúgal)

Þessi 23 ára gamli leikmaður Sporting hefur eignað sér hægri kantinn í portúgalska landsliðinu eftir að hafa slegið í gegn með félagsliði sínu. Var að margra mati besti miðjumaður nýafstaðins tímabils í heimalandinu þó svo að Sporting hafi naumlega misst af titlinum. Er sagður vera með einstaklega góðan fótboltaheila og mikla tæknilega getu. Var í byrjunarliðinu í fyrsta leik Portúgals gegn Íslandi og var klárlega einn af þeirra líflegri mönnum.

Hakan Calhanoglu (Tyrkland)

Þessi 22 ára gamli miðjumaður hefur gegnt lykilhlutverki hjá Bayer Leverkusen í þýsku úrvalsdeildinni og það er einungis talið tímaspursmál hvenær hann heldur á önnur og stærri mið. Þrátt fyrir að vera alinn upp í Þýskalandi kaus Calhanoglu að leika ávallt fyrir yngri landslið og síðar A-landslið Tyrklands. Calhanoglu skoraði eina mark Tyrklands í 2-1 tapi gegn Englandi skömmu fyrir Evrópumótið og verður í lykilhlutverki í sumar.

Arkadiusz Milik (Pólland)

Það er auðvelt að falla í skuggann sem framherji pólska landsliðsins þegar félaginn í framlínunni er enginn annar en Robert Lewandowski, einn mesti markaskorari Evrópu. Hinn 22 ára gamli Milik þykir þó vera gríðarlegt efni og hefur hann vakið áhuga margra stórliða á borð við Arsenal og Liverpool eftir að hafa staðið sig vel með Ajax í Hollandi. Á nýafstöðnu tímabili var hann þriðji markahæsti leikmaðurinn í hollensku deildinni með 21 mark og þar að auki hefur hann raðað inn mörkum með landsliðinu. Skoraði hann sex mörk í undankeppni EM og hafði fyrir mót skorað tíu mörk í 26 leikjum fyrir Pólverja. Hann byrjaði síðan Evrópumótið á að skora sigurmark Póllands gegn Norður-Írlandi í 1-0 sigri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: EM  • Evrópumótið