*

Menning & listir 16. september 2019

Sex teymi valin í Firestarter hraðalinn

Tæknilausnir og tónlistarnýjungar í nýjum viðskiptahraðli fyrir íslenskt tónlistarumhverfi og starfsemina í kringum hana.

Gervigreind fyrir tónsmíðar og kolefnisjöfnun tónlistarhátíða meðal hugmynda í nýjum viðskiptahraðli sem ætlað er að auka verðmætasköpun í íslensku tónlistarumhverfi. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá seinni part sumars kemur svo MIT Bootcamp með ráðgjöf til þátttakenda á lokadegi hraðalsins.

Sex teymi hafa verið valin til þátttöku í Firestarter – Reykjavik Music Accelerator, fyrsta viðskiptahraðlinum á Íslandi sem ætlað er að auka verðmætasköpun í íslensku tónlistarumhverfi. Að Firestarter standa Tónlistarborgin Reykjavík, ÚTÓN og Icelandic Startups með stuðningi Senu Live, Samtóns og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytissins.

Hraðallinn miðar að því að rækta tónlistarfrumkvöðla, styrkja umgjörð viðskipta og efla tengsl tónlistar við umhverfi nýsköpunar og tækni líkt og önnur sambærileg verkefni Icelandic Startups. Þrjú teymi vinna að tæknilausnum en hin þrjú að eflingu tónlistarumgjarðar.

Teymin fá aðgang að sameiginlegu vinnurými, fræðslu, ráðgjöf og leiðsögn reyndra frumkvöðla og sérfræðinga, meðal annars frá MIT Bootcamp, meðan á hraðlinum stendur. Firestarter hefst 9. október og lýkur á ráðstefnuhluta Iceland Airwaves. Þar munu fyrirtækin kynna hugmyndir sínum fyrir fjárfestum, ráðstefnugestum og öðrum lykilaðilum á sviði tónlistar. 

Eftirtalin sex fyrirtæki taka þátt í Firestarter – Reykjavik Music Accelerator 2019:

  • Calmus: Byltir því hvernig við sköpum tónlist.

Byltingarkenndur hugbúnaður byggður á gervigreind sem semur og spilar fjölbreytta tónlist í rauntíma

  • Kaboom: Tinder fyrir skapandi sálir

Tengslamyndunarsmáforrit fyrir skapandi fólk í leit að samstarfi sem kemur hugmyndum í framkvæmd

  • Myrkir Músíkdagar: Hlaðborð fyrir unnendur samtímatónlistar

Á Myrkum Músíkdögum sameinast hefðir og nýsköpun á stærsta vettvangi fyrir samtímatónlist á Íslandi

  • Notedrops: Allt sem skapandi tónlistarfólk þarfnast á einu bretti.

Tónlistarmiðlun og framleiðslustúdíó

  • Stelpur Rokka!: Ný og fersk tónlistarútgáfa lítur dagsins ljós.

Róttæk tónlistarútgáfa

  • TreememberMe: Tónlistarhátíðir kolefnisjafnaðar!

Gerir fyrirtækjum kleift að tengja vörur, þjónustu og viðburði, s.s. tónlistarhátíðir, við gróðursett tré sem viðskiptavinir geta deilt á samfélagsmiðlum.