*

Bílar 26. ágúst 2013

Síðasta Rúgbrauðið framleitt í ár

Sendibíllinn Type II frá Volkswagen hefur verið framleiddur í Brasilíu í 56 ár.

Sextíu og fjórum árum eftir að fyrsta „Rúgbrauðið“ rann út úr verksmiðju Volkswagen í Þýskalandi verður framleiðslu á þessari vinsælu bílategund loks hætt um næstu áramót, en sendibílarnir hafa verið framleiddir í Brasilíu undir nafninu Type II Kombi.

Hætt var að framleiða Rúgbrauð í Evrópu og Bandaríkjunum árið 1979, en framleiðsla hélt áfram í Suður-Ameríku, en bílarnir voru framleiddir í Argentínu til ársins 1986 og í Mexíkó til ársins 1996. Frá þeim tímapunkti hafa bílarnir aðeins verið framleiddir í Brasilíu. Útlitslega eru brasilísku Rúgbrauðin svipuð þeim gömlu þýsku, en vélarnar eru öflugri og ganga fyrir áfengi sem unnið er úr sykurreyr.

Ákvörðunin um að hætta framleiðslu er ekki tekin vegna þess að Brasilíumenn hafa ekki lengur áhuga á bílnum, heldur voru öryggiskröfur til bifreiða hertar nýlega þar í landi og of erfitt reyndist að breyta Rúgbrauðinu í takt við þessar nýju kröfur. Einkum voru það kröfur um loftpúða fyrir ökumann sem stóðu í framleiðandanum.

Áður en framleiðslunni verður endanlega hætt verða framleidd sex hundruð eintök, sem seld verða á tvöfalt hærra verði en önnur Rúgbrauð og eru þau einkum hugsuð fyrir safnara og þá sem sakna munu bílsins. Áhugasamir geta keypt slíkt safnaraeintak á um 4,3 milljónir króna.

Stikkorð: Brasilía  • Volkswagen  • Rúgbrauð