*

Ferðalög & útivist 8. mars 2013

Sígarettusölumaður að kaupa Lonely Planet

BBC Worldwide vill losna við stóran hlut í Lonely Planet bókaútgáfunni og hefur líklega fundið kaupanda í Brad Kelly.

Til stendur að BBC selji stóran hlut í útgáfufyrirtækinu Lonely Planet, sem gefur út samnefndar ferðahandbækur. Á fréttavef CNN segir að salan sjálf komi ekki á óvart, enda hafi BBC um nokkurn tíma verið að leita að áhugasömum kaupanda. Það sem vekur aftur á móti athygli er hugsanlegur kaupandi, milljarðamæringurinn Brad Kelly.

Kelly varði síðasta áratug 20. aldarinnar í að selja ódýrar sígarettur eins og USA Gold, Bull Durham og Malibu og seldi svo fyrirtækið fyrir einn milljarð dala árið 2001. Síðan þá hefur hann varið tíma sínum í að kaupa upp land og að berjast fyrir náttúruvernd í Bandaríkjunum. Er talið að Kelly sé í hópi þriggja til fjögurra stærstu landeigenda í Bandaríkjunum.

BBC keypti Lonely Planet á 210 milljónir dala, andvirði um 26 milljarða íslenskra króna, en hefur ítrekað afskrifað eign sína í fyrirtækinu og var hún metin á um 135 milljónir dala í bókum BBC Worldwide í júlí í fyrra. Virði bókaútgefandans gæti jafnvel verið enn minna í ljósi samdráttar í bókaútgáfu.

Kelly hefur það orð á sér að vera varkár fjárfestir, sem ekki anar út í hlutina og lætur ekki tilfinningar stjórna sér í þessum málum. Því hafa margir velt því fyrir sér hvað vaki fyrir honum með því að kaupa ferðabókaútgáfu sem ekki gengur neitt sérstaklega vel. Hann á hins vegar hlut í vefsíðunni Outwild TV sem sýnir myndbönd af ferðablaðamönnum. Hugsanlega vill hann aðallega eignast vörumerki Lonely Planet, sem vissulega er vel þekkt og virt, til að nota í einhver slík verkefni.

Stikkorð: BBC  • Lonely Planet