*

Menning & listir 2. mars 2015

Sígilt & stílhreint

Íslenska fatamerkið Huginn Muninn hefur getið sér gott orð fyrir vandaðar og sígildar skyrtur sem tekið er eftir.

Ásta Andrésdóttir

„Huginn og Muninn voru hrafnar Óðins. Þeir voru hugur hans og minni og færðu honum fréttir utan úr heimi. Á skyrtunum eru borðar með áletruðum versum úr Gylfaginningu. Á einum þeirra kveðst Óðinn óttast að hrafnarnir hans dýrmætu snúi ekki aftur til hans. Þetta endurspeglar á vissan hátt tilfinningar okkar og þjóðarsál; þetta er saga og menningararfur Íslendinga og hinna Norðurlandanna, og eitthvað sem aðrar þjóðir geta tengt við,“ útskýrir Guðrún Guðjónsdóttir, yfirhönnuður Huginn Muninn, íslensks fatamerkis sem getið hefur sér gott orð fyrir vandaðar og sígildar skyrtur sem tekið er eftir. „Skyrturnar eru með vönduðu handbragði og hvert einasta smáatriði er þaulhugsað og fyrir það eru skyrturnar þekktar.“

Huginn Muninn er í eigu textílfyrirtækisins Martex, sem var stofnað árið 2007 af fyrrverandi eigendum 66° Norður. Guðrún var ráðin yfirhönnuður síðla árs 2008 og hófst þá mikil þróunar- og rannsóknarvinna sem leiddi til þess að ákveðið var að framleiða herraskyrtur. „Við tókum eftir því að það vantaði íslenskar herraskyrtur á markaðinn og aukna fjölbreytni,“ útskýrir hún. Einnig spilaði inn í að Martex hafði þá nýverið fest kaup á skyrtuverksmiðju í Litháen.

Fara þennan gullna meðalveg

Næsta eina og hálfa árinu varði Guðrún í að þróa hið fullkomna herraskyrtusnið. „Ætlunin var að gera þetta vel og fara sér að engu óðslega. Sem klæðskera finnst mér mjög mikilvægt að frágangur og saumaskapur sé í hæsta gæðaflokki og að sniðin séu góð. Og efnin sem við notum eru úr 100 prósent bómull frá Tyrklandi og Portúgal. Ég reyni alltaf að fara þennan gullna meðalveg, að varan sé ekki of dýr en haldi samt gæðunum. Skyrturnar okkar hafa höfðað til allra aldurshópa hingað til, alveg frá unglingsaldri til níræðs. Við höfum alltaf sagt að skyrtur séu fyrir alla og erum með breiða línu sem henta flestum og er mjög skemmtilegt að sjá hversu fjölbreytilegur hópur þetta er.“

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.