*

Ferðalög & útivist 16. nóvember 2016

Siglt um Dóná á aðventunni

Íslendingar streyma í skipulagðar aðventuferðir til Evrópu að skoða jólamarkaði og njóta lífsins.

Trausti Hafliðason

Nokkuð algengt er að Íslendingar fari til sólarlanda yfir jólahátíðina en þó er hópur fólks sem sækir í annars konar ferðir. Bændaferðir bjóða upp á aðventuferðir til borga í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu, Belgíu og Bretlandi. Í þeim eru frægir jólamarkaðir skoðaðir og notið er leiðsagnar íslensks fararstjóra.

Ferðaþjónusta bænda var stofnuð árið 1980 og er því ein elsta ferðaskrifstofa landsins. Reksturinn skiptist í grófum dráttum í tvær skrifstofur. Annars vegar Hey Iceland, sem  býður upp á bændagistingu innanlands og skipuleggur ferðir sem seldar eru erlendum ferðamönnum. Hins vegar selja Bændaferðir Íslendingum pakkaferðir til útlanda.

Áslaug María Magnúsdóttir, deildarstjóri hjá Bændaferðum, segir að ferðaskrifstofan hafi nánast frá stofnun boðið Íslendingum upp á aðventuferðir og að þær njóti mikilla vinsælda, sem endurspeglist í því að þegar sé uppselt í margar þessara ferða núna. Hún segir að ferðirnar séu vinsælar hjá fólki sem er 55 ára eða eldra og algengt sé pör fari saman.

„Það fara margir ár eftir ár í þessari ferðir okkar," segir Áslaug María.

Jólamarkaðir

Bændaferðir bjóða núna upp á tíu mismunandi aðventuferðir til borga í Þýskalandi, Belgíu, Englandi, Ítalíu og Austurríkis. Eru þetta bæði helgarferðir og 7 til 9 daga ferðir. Eins og nafnið gefur til kynna er megináherslan lögð á að fólk njóti jólastemmningar í nýju umhverfi. Verðið á þessum ferðum er frá tæplega 100 þúsund krónum upp í ríflega 200 þúsund.

„Innifalið í verðinu er flug, gisting, skoðunarferðir og síðan fer alltaf íslenskur fararstjóri með hópnum," segir Áslaug María. Sem dæmi um aðventuferð sem Bændaferðir bjóða upp á er sigling um Dóná í byrjun desember.

„Flogið er til München og þaðan er farið til Nürnberg þar sem gist er í tvær nætur en í borginni er að finna elsta jólamarkað Þýskalands," segir Áslaug María. „Eftir þetta er farið í þriggja daga siglingu um Dóná. Gist er um borð skipinu, sem verður skreytt í fallegan jólabúning. Í siglingunni er allt innifalið, meðal annars hátíðarkvöldverður, þar sem snætt verður með kapteininum. Káeturnar eru mjög góðar og með sér snyrtingu."

Siglingin hefst í borginni Passau, við ármót Dónár og ánna Inn og Ilz. Til þess að komast þangað þarf að aka ríflega 200 kílómetra leið frá Nürnberg.

Regensburg

Áslaug María segir að bæjarstæði Passau sé af mörgum talið eitt það fallegasta í Evrópu. Frá Passau er siglt í áttina til Nürnberg og er meðal annars stoppað í borginni Regensburg, gamalli rómverskri borg, sem á sér yfir tvö þúsund ára sögu. Borgin er falleg og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO um árabil.

Að siglingunni lokinni er gist í Nürnberg í þrjár nætur. Áslaug María segir að farið verði í stuttar skoðunarferðir, meðal annars til borganna Bamberg, þar sem vínbóndi verður sóttur heim og til Würzburg og bæjarins Rothenburg ob der Tauber.

„Allir þessir bæir og borgir, sem heimsóttar eru í þessari ferð, eru mjög jólalegar og hafa yfir sér mjög skemmtilegt yfirbragð á þessum árstíma," segir Áslaug María.

Nánar er fjallað um málið í fylgiblaði Viðskiptablaðsins, Jólahandbókinni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Ferðalög  • jól  • jólamarkaður