*

Menning & listir 16. júní 2013

Sigur Rós rokkar

Viðskiptablaðið er með nýjustu plötu Sigur Rósar í spilaranum. Kveikur er með bestu plötum bandsins.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Kveikur, sjöunda hljóðversplata Sigur Rósar kemur út á morgun, þjóðhátíðardaginn 17. júní. Viðskiptablaðið hefur legið yfir gripnum. Niðurstaðan er sú að á þeim sextán árum sem liðin eru frá því Von kom út er Kveikur með betri plötum sveitarinnar, í flokki með Ágætis byrjun, Takk, svigaplötunni og hinni hressilegu Með suð í eyrum við spilum endalaust

Fingraför Sigur Rósar eru út um alla plötu: ást og duld og barnslegt sakleysi í bland við læti, ógnarkraft og hávaða sem oft koma fyrir í fyrri verkum allt frá upphafi.

En lögin eru myrkari og tónninn þyngri en áður sem er í góðu lagi eftir Valtara, síðustu plötu sveitarinnar sem var á köflum endurteknin frá fyrri verkum. Greinilegt er að Sigur Rós hefur haldið takti og vel það þrátt fyrir brotthvarf Kjartans Sveinssonar. 
Magnþrunginn og dökkur hljóðheimurinn er sterkur og virðist á stundum sem Jónsi hafi dregið slagverkskistuna sem hann safnaði í með Samuli Kosminen við gerð Go inn í upptökustúdíó Sigur Rósar. Á stöku stað má jafnvel greina áhrif sem virðast úr sarpi eldgamalla iðnsveita á borð við Einsturzende Neubauten og jafnvel Laibach.

Platan hefst með geysilega sterku lagi, Brennisteinn, sem rífur í svo um munar. Á eftir fylgja átta önnur hvert öðru betra. Á endurspilun í iPod-inum eru Brennisteinn, Hrafntinna, Kveikur og Rafstraumur.

 

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson er blaðamaður Viðskiptablaðsins.

Hér má sjá og hlýða á Brennistein Sigur Rósar.

Stikkorð: Sigur Rós  • Kveikur