*

Sport & peningar 24. mars 2020

Síminn Cyclothon aflýst í ár

Hjólreiðakeppnin sem haldin hefur verið undir merkjum Wow verður ekki haldin undir merkjum Símans í ár vegna veirunnar.

Aðstandendur hjólreiðakeppninnar Síminn Cyclothon, sem áður hét Wow Cylothon, hafa fundað stíft síðustu daga vegna þeirra aðstæðna sem komið hafa upp í samfélaginu vegna útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum.

Segja þeir að því miður hafi ákvörðunin tekið sig sjálf – Síminn Cyclothon verður ekki haldið árið 2020. Keppnin hefur verið vinsæl síðustu ár og verið sú stærsta sinnar tegundar á landinu gg hafa fjölmargir keppendur notað hana til að safna áheitum fyrir ýmis konar góðgerðarmálefni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tók Síminn við sem aðalstyrktaraðili hátíðarinnar í haust, en hún hefur verið haldin undir merkjum Wow air sem verið hefur aðalstyrktaraðili hennar frá stofnun keppninnar 2012.

Á vef Símans er fjallað um söguna á bakvið keppnina, en hún varð til sem hugmynd þeirra Magnúsar Ragnarssonar hjá Símanum og Skúla Mogensen forstjóra og stofnanda Wow air.

Yrði þetta í fyrsta sinn sem keppnin verður ekki haldin síðan hún komst fyrst á laggirnar, en hún hélt áfram að vera undir merkjum Wow air í sumar þó félagið hefði farið í gjaldþrot í marslok.

Magnús Ragnarsson sem haldið hefur utan um hátíðina segir þó að aðstandendur hlakki til að halda keppnina aftur með glæsibrag að ári liðnu.

„Í ljósi aðstæðna væri ábyrgðarlaust að hvetja til hópæfinga, nær allri æfingaaðstöðu hefur verið lokað og fyrirséð að þátttaka verður í algeru lágmarki ef einhver. Þetta var erfið ákvörðun en sú eina sem kemur til greina í því ástandi sem nú ríkir,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum.

Hér má lesa eldri fréttir um hjólreiðakeppnina, aðstandendur og styrktaraðila: