*

Tölvur & tækni 4. október 2015

Síminn étur tölvuheiminn

Útbreiðsla snjallsíma um heimsbyggðina er engu öðru lík og byltingin sú virðist enn vera að sækja í sig veðrið.

Það eru ekki nema átta ár síðan Apple setti iPhone fyrst á markað og hratt þannig af stað snjallsímabyltingunni. Þegar Steve Jobs heitinn kynnti hann fyrst til sögunnar duldist engum, að hann gerði sér háar hugmyndir um símann, en jafnvel þeim hugmyndaríka og framsýna náunga kom tæplega til hugar hversu afgerandi og afdrifarík byltingin yrði. Hér var nefnilega ekki aðeins um framfarastökk á sviði tækni og fjarskiptatæki, því það hefur haft veruleg áhrif á mannlega hegðan og samskipti, jafnvel heimssöguleg áhrif.

Undanfarna mánuði og misseri hafa okkur borist fregnir af sívaxandi straumi förufólks frá Afríku og Asíu, sem freistar þess að komast til Vesturlanda í leit að betra lífi, bæði hvað áhrærir efni og aðbúnað, en einnig hvað varðar frið og öryggi. Þar sker neyð sýrlenskra flóttamanna sérstaklega í augu, en meðal þess sem vakið hefur athygli margra Vesturlandabúa er að þrátt fyrir að fólkið sé landflótta og standi nánast allslaust uppi á framandi strönd, þá virðist annar hver maður vera með snjallsíma.

Þvert á það sem sumir segja eru þessir farsímar í höndumflótta- og förufólks ekki til marks um að það hafi það eigi ekki svo bágt þrátt fyrir allt. En þeir eru vissulega til tákns um eitthvað: Þeir draga vel fram hina nýju öld snjallsímans, þar sem svo að segja allir hafa öfluga tölvu í vasanum, samskiptatæki, myndavél, leiðsögutæki, afþreyingargræju og hvaðeina, allt í sama hylkinu: hina algildu vél.

Nánar er fjallað um málið í Tækni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Snjallsímar