*

Sport & peningar 20. desember 2019

Síminn tekur við Cyclothon keflinu

Hjólreiðakeppnin sem borið hefur merki Wow og fjólubláa einkennislitinn verður nú ljósblátt og undir merkjum Símans.

Stærsta hjólreiðakeppni landsins mun halda áfram á næsta ári undir nýju nafni, Síminn Cyclothon. Keppnin mun fara fram dagana 23. – 26. júní 2020 og mun hjólreiðafólk frá öllum heimshornum upplifa stórbrotna náttúru og íslenskt veðurfar í öllum sínum birtingarmyndum undir miðnætursól.

Síminn Cyclothon er ekki aðeins hjólreiðakeppni heldur er á hverju ári verðugt málefni valið til að styrkja í gegnum áheitasöfnun keppninnar. Keppendur og lið safna áheitum sem renna óskipt til málefnisins. Nú eru það sumarbúðir Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal sem njóta góðs af áheitasöfnuninni sem safnaðist í á árinu.

Orri Hauksson forstjóri Símans afhenti forstöðumanni Reykjadals, Margréti Völu Marteinsdóttur, söfnunarféð í höfuðstöðvum Símans. Stuðningurinn mun nýtast vel til frekari uppbyggingar á því frábæra starfi sem unnið er í Reykjadal.

„Við erum afskaplega stolt að setja nafn okkar við þessa frábæru keppni og tryggja að hún verði haldin áfram. Cyclothon keppnin tengist okkur sterkum böndum því bæði höfum við tekið þátt í henni ásamt því að Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri hjá Símanum er annar stofnandi hennar með Skúla Mogensen.“ segir Orri Hauksson forstjóri Símans.