*

Sport & peningar 8. maí 2013

Sir Alex hættir sem þjálfari Manchester United

Alex Ferguson hefur þjálfað Manchester United í 26 ár og unnið 13 deildartitla.

Sir Alex Ferguson mun hætta sem þjálfari Manchester United að loknu þessu tímabili og ættu aðdáendur annarra enskra liða sem setið hafa í skugganum af Manchester United því að geta tekið gleði sína á ný. Ferguson mun þó halda áfram störfum fyrir félagið sem stjórnarmaður og „sendiherra“, að því er segir í frétt Financial Times.

Knattspyrnufélagið greindi frá þessu í gærkvöldi, en Ferguson hefur þjálfað liðið í 26 ár. Undir handleiðslu hans hefur Manchester United náð ótrúlegum árangri, þar á meðal hefur félagið orðið deildarmeistari þrettán sinnum og unnið meistaradeildina tvisvar sinnum. Undir stjórn hans hefur liðið spilað 1033 leiki í Úrvalsdeild ensku deildarinnar og unnið 624 af þeim leikjum, gert jafntefli 237 sinnum og tapað 172 leikjum.

Vangaveltur um framtíð Ferguson hjá félaginu hafa verið nokkrar, en yfirlýsingin nú kemur að nokkru leyti á óvart því hann sagði sjálfur á sunnudaginn að hann ætlaði að halda áfram sem þjálfari. Gert er ráð fyrir því að hann muni koma að ráðningu nýs þjálfara, en meðal þeirra sem til greina eru taldir koma eru David Moyes, þjálfari Everton og José Mourinho, sem gert er ráð fyrir að fari frá Real Madrid í sumar.

Þrátt fyrir afar góðan árangur hafa aðdáendur Liverpool haldið því til haga að Ferguson, sem púlarar kalla reyndar stundum Rauðnef, hafi ekki tekist að slá met Bob Paisley en undir hans stjórn vann Liverpool þrjá Evrópumeistaratitla, en United hefur unnið tvo undir stjórn Ferguson. Þetta skiptir margan púlarann máli, því gengi Liverpool hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarin ár.