*

Bílar 29. ágúst 2015

Sjálfakandi bíll Google ringlaður yfir manni á hjóli

Þó gervigreindin í bílum Google sé góð á hún enn nokkuð í land með að skilja mannfólkið, miðað við atvik fyrr í mánuðinum.

Sjálfakandi bílar Google hafa ekki lent í neinum alvarlegum slysum og samkvæmt skýrslu sem fyrirtækið gaf út í júní höfðu þeir þá aðeins lent í tólf óhöppum á þeim 2,9 milljónum kílómetra sem þeir höfðu ekið. Ekkert óhappanna var gervigreind Google-bílsins að kenna.

Engu að síður virðast bílarnir eiga nokkuð í land með að skilja mannlega hegðun, miðað við atvik sem átti sér stað í Austin í Texas fyrr í þessum mánuði. Business Insider greinir frá atvikinu.

Hjólreiðamaður og sjálfakandi Google-bíll mættust við gatnamót. Bíllinn kom andartaki á undan hjólinu að gatnamótunum, og hjólreiðamaðurinn segir að hann hafi beðið eftir að bíllinn keyrði í gegnum gatnamótin.

Í staðinn fyrir að staðnæmast alveg hélt hjólreiðamaðurinn sér á jafnvægi á hjólinu með því að hreyfa pedalana fram og til baka. Á meðan á þessu stóð var hjólreiðamaðurinn á örlítilli ferð fram og til baka. Google-bíllinn varð ringlaður á þessu atferli hjólreiðamannsins og á tveimur mínútum komst hann aldrei lengra en hálfa leið yfir gatnamótin.

Hjólreiðamaðurinn sagðist þó hafa fundist hann vera öruggari í návígi við þennan sjálfakandi bíl heldur en aðra bíla.

Stikkorð: Google