
Mercedes-Benz frumsýndi á CES tæknisýningunni í Las Vegas í vikunni nýjan hugmyndabíl sem er sannarlega magnaður og gefur manni sýn inn í framtíðina. Þessi lúxusbíll sem hefur fengið nafnið F 015 Luxury in Motion gefur ákveðin fyrirheit um það sem koma skal. Bíllinn mun aka sjálfur og raunar ekki þörf fyrir ökumann undir stýri.
„Sjálfakandi bílar eiga eftir að gjörbreyta samfélagi nútímans. Bílar munu verða meira en bara farartæki, eiginlega færanlegt lífsrými eða stofa á hjólum,“ sagði Dieter Zetsche, forstjóri Mercedes-Benz, við frumsýningu bílsins.
Innanrými bílsins er magnað og nýstárlegt í meira lagi. Fjórir hreyfanlegir hægindastólar og sex skjáir eru áberandi og minnir bíllinn meira á lúxus setustofu en innanrými í bíl.
Ökumaður getur valið hvort hann vill keyra bílinn sjálfur eða hvort hann vill slappa a fog lætur þá bílinn aka sjálfan. Þegar hann ekur sjálfur snúast hægindastólarnir sjálfkrafa svo ökumaður og farþegar snúi í akstursstefnu. Stýrið sprettur þá upp úr innréttingunni og lítur þetta þá allt aðeins eðlilegra út.
Gert er ráð fyrir að bíllinn gangi fyrir vetnismótor. Bíllinn er smíðaður úr koltrefjagleri, áli og sérstyrktu stáli. Verður hann um 40% léttari en núverandi bílar að svipaðri stærð.
Myndband: