*

Bílar 11. maí 2015

Sjálfstýrður vörubíll prufukeyrður í Nevada

Freightliner Inspiration er ný tegund vörubifreiða sem á að gera vöruflutninga yfir lengri vegalengdir hagkvæmari.

Bjarni Ólafsson

Í vikunni prufukeyrði bílaframleiðandinn Daimler nýjan vörubíl sem fyrirtækið vonast til að muni gerbreyta vöruflutningum á landi. Vörubíllinn er sjálfstýrður og hefur fengið nafnið Freightliner Inspiration og er byggður á sama grunni og 18 hjóla Daimler vörubílnum sem seldur er um heim allan.

Í frétt Wired um bílinn er haft eftir Wolfgang Bernhard, stjórnarmanni í Daimler, að greinileg þörf sé fyrir bíla af þessu tagi og að fyrirtækið ætli að vera fyrst til að mæta þeirri þörf.

Þrátt fyrir yfirlýsingar um sjálfstýringu er hún takmörkuð í tilviki þessa bíls. Sjálfstýringin mun aðeins taka við stjórn bílsins þegar út úr borgum er komið og leiðin tiltölulega greið á breiðvegum. Hann mun sjálfur sjá um að halda réttri fjarlægð frá öðrum bifreiðum og að halda sér sjálfum innan akreinar. Bifreiðin mun ekki geta tekið fram úr hægfara bifreiðum og ef bíllinn gerir sér grein fyrir, ef svo má að orði komast, að aðstæður eru fyrir hendi sem hann ræður ekki við þá lætur hann ökumann vita.

Slíkt gæti til dæmis komið til ef snjór hefur fallið á veginn og gert vegmerkingar ólæsilegar. Taki bílstjórinn ekki við innan fimm sekúndna hægir bíllinn á sér og stöðvast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.