*

Ferðalög & útivist 28. nóvember 2017

Sjarmerandi verslunarborg

Bristol þykir með fegurri stórborgum Englands.

Gamla miðborgin er sérlega skemmtileg og sjarmerandi. Mörg húsin tengjast verslun og útgerð enda hefur Bristol verið ein mikilvægasta hafnarborg Englands allt frá miðöldum. Má þar nefna að gömul vöruhús frá 19. öld eru nú aðsetur veitingastaða, verslana og listagallería. St Nicholas Street og Baldwin Street eru sérlega sjarmerandi götur. Frægur markaður er við endann á fyrrnefndu götunni. Það er mikið af fallegum kirkjum í Bristol og dómkirkjan er sérlega tignarleg og fögur. Þá er áhugavert að heimsækja skipasafnið Great Britain þar sem þið getið kíkt um borð í samnefnt skip og kynnst sögu þess. Skipið var lengsta skip sinnar tegundar á árunum 1845-1854. Clifton-brúin er eitt helsta kennileiti Bristol en hún gengur yfir stórt gljúfur við vesturhluta borgarinnar. Clifton Village er þar rétt hjá en þetta skemmtilega úthverfi Bristol er vert að heimsækja. Þangað er aðeins um 25 mínútna göngutúr úr miðborg Bristol. Hverfið er listamannahverfi og minnir mig á Notting Hill hverfið í London þar sem margar litlar verslanir selja list og ýmislegt fleira skemmtilegt. Þar er eitt besta og dúllulegasta kaffihús sem ég hef komið á en það ber einfaldlega nafnið Anna. Það er gott að versla í Bristol og þar er m.a. stór og mikil verslunarmiðstöð í Cabot Circus sem hýsir tugi verslana. Auk þess er að finna fjölda minni verslana í götum við miðborgina. Það er mikið líf og fjör í Bristol á kvöldin og þá sérstaklega um helgar. Fjölda veitingastaða, kráa og skemmtistaða er þar að finna þannig að Bristol iðar sannarlega af lífi eftir að rökkva tekur.

Sjóræningjar og Enska öldin
Þegar gengið er eftir hafnarbakkanum og ánni Avon, steinsnar frá miðborginni, blasa við seglskip og gömul hús sem minna á þann tíma þegar sjóræningjar sigldu um höfin og rændu og rupluðu. Maður gæti auðveldlega ímyndað sér að rekast á Jack Sparrow eða aðra sjóræningjafígúrur þarna á hafnarbakkanum. Og Bristol hefur sannarlega sterka tengingu við sjóræningja því hinir alræmdu sjóræningaforingjar Svartskeggur og Bartholomew Roberts komu báðir frá Bristol. Bristol liggur við ána Avon nær innst í Bristolflóa í Suðvestur-Englandi. Borgin var á miðöldum önnur til þriðja stærsta borg Englands. Það er gaman að segja frá því að fiskiskip frá Bristol sigldu til Íslands til veiða og verslunar á 15. öld sem gjarnan er kölluð Enska öldin. Talið er að allt að 3% af verslunarvarningi Bristol hafi verið Íslandsverslun. Jafnfram fluttu nokkrir Íslendingar til Bristol. Árið 1483 voru 48 Íslendingar skráðir þar í borg samkvæmt heimildum.

Borgarastyrjöld og þrælaverslun
Bristol kom mikið við sögu í ensku borgarastyrjöldinni sem hófst 1642 og tók borgin stöðu með þinginu í London gegn konunginum Karli II. Konungurinn sendi her undir stjórn frænda síns Róberts Rínarfursta og réðist hann á borgina og hertók hana eftir mikil átök. Íbúar og þingliðar fengu þó að fara óáreittir. Hins vegar komst konungsherinn yfir mikið magn af vopnum í borginni. Þeir náðu einnig átta kaupskipum í höfninni sem urðu lykillinn að herskipaflota konungs. Þingherinn náði borginni aftur á sitt vald þremur árum síðar eftir mikið umsátur og stórárás sem leiddi til uppgjafar konungshersins í borginni. Svartur blettur á sögu Bristol, sem og fleiri borga, er þrælaverslunin en á síðari hluta 17. aldar og allt undir lok 18. aldar sigldu skip frá Bristol í alls 2.000 skipti til Ameríku með hálfa milljón þræla frá Afríku.

Uppbygging eftir seinni heimsstyrjöldina
Bristol varð fyrir miklum loftárásum Þjóðverja í síð- ari heimsstyrjöldinni en markmið nasista var að eyðileggja höfnina og mikilvæga flugvélaverksmiðju sem var í borginni. Hitler sjálfur lýsti því yfir að borgin hefði verið þurrkuð út af yfirborði jarðar. Alls urðu loftárásirnar 77 talsins. Í þeim létust 1.299 manns og 80 þúsund hús eyðilögðust. Englendingar kalla þessa atburði Bristol Blitz. Vel hefur tekist til við að endurbyggja stóra hluta borgarinnar sem urðu verst úti í loftárásunum. Gaman að sjá hve mörg húsin eru fallega byggð og sum hver litrík. Það má segja að í Bristol kallist á gamli og nýi tíminn. Þetta er áhugaverð og falleg borg með mikla sögu og skemmtilega stemningu fyrir fólk á öllum aldri