*

Hitt og þetta 11. nóvember 2013

Sjö fallegustu þorp í Evrópu

Fáir ferðamenn, undurfögur hús og stórkostlegt landslag er það sem sjö fegurstu þorp í Evrópu eiga sameiginlegt.

Falleg þorp eru víða um heim en gallinn er bara sá að þegar heimurinn uppgötvar þau verða þau svo umsetin ferðamönnum að þau geta misst sjarma sinn. Þorpin fimm á ítölsku Rívíerunni, Cinque Terre, eru ágætis dæmi um þetta. Mannhafið í þorpunum á vinsælustu ferðamannatímunum er farið að minna á lætin í Disney World. 

En nú hefur CNN valið þau sjö þorp sem þykja hafa allt sem fallegt þorp þarf að hafa, kyrrð, rólegheit, fallegt landslag og dásamleg hús. Þorpin eiga það sameiginlegt að hafa eitthvað eitt sem gerir þau alveg sérstök og ólík öðrum þorpum. 

Tellaro, Italía: Þorpið þykir algjörlega í sérflokki því að, þökk sé hættulegum fjallavegum, er erfitt að komast að því. Þyrping pastellitaðra húsa hanga utan í hlíðinni með útsýni yfir Miðjarðarhafið. 

Bibury, England: Bibury þykir einstakt vegna hlíðanna sem umlykja það og steinhúsanna sem eru mörg hundruð ára. 

Hallstatt, Austurríki: Ef myndskreyta ætti fallegt ævintýri yrði ljósmynd af Hallstatt líklega fyrir valinu. Þorpið stendur við fallegt stöðuvatn og stórkostlegan fjallgarð. 

Folegandros, Grikkland: Rétt hjá Santorini er að finna þorpið Folegandros. Húsin eru hvít, litrík blóm skreyta götur og garða og inni á milli glittir í bláa kirkjuturna. Og ferðamenn eru fáir. 

Colmar, Frakkland: Colmar er bæði undir frönskum og þýskum áhrifum þar sem bæði má kaupa dýrindis croissant, foie gras og sauerkraut í litlum og fallegum hliðargötum út frá aðaltorginu. 

Reine, Noregur: Reine er fallegt lítið sjávarþorp þar sem kofum sjómanna hefur verið breytt í gististaði fyrir ferðamenn. 

Telč, Tékkland: Í gegnum árhundruðin hafa íbúar í þorpinu Telč verið mjög uppteknir af því að eiga falleg hús. Metnaðurinn var slíkur að í dag nær þorpið inn á lista CNN yfir sjö fallegustu þorpin í Evrópu. 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Fegurð  • Þorp