*

Ferðalög & útivist 4. mars 2013

Sjö hættulegustu og afskekktustu eyjar í heimi

CNN hefur tekið saman lista yfir sjö eyjar sem allar eiga það sameiginlegt að vera afskekktar og hættulegar.

Viðskotaillir eyjaskeggjar, hættulegir klettar, eldfjöll og engar hafnir eru meðal annars það sem má finna á sjö eyjum sem CNN.com tók saman og metur sem hættulegustu og afskekktustu eyjar heims. 

Eyjarnar eru ekki flokkaðar sem vinsælir ferðamannastaðir en eru engu að síður áhugaverðar fyrir margra hluta sakir. 

Og nei, af einhverjum ástæðum komst Ísland ekki á lista.

 

 

 

 

Tristan da Cunha 

Breski eyjaklasinn, Tristan da Cunha er í miðju Suður Atlantshafi. Í austri, 2816 kílómetrum í burtu, er Suður-Afríka. Og 3219 kílómetrum í vesturátt er Suður-Ameríka. Eyjaklasinn er afskekktasti eyjaklasi heims. Árið 1961 varð þar eldgos og allir íbúar voru fluttir til Englands. Og hvað segir opinber heimasíða eyjaklasans? „Engar pakkaferðir, engin hótel, enginn flugvöllur, engir næturklúbbar, engin jet-ski og það er ekki öruggt að synda í sjónum.“ Tíu sinnum á ári er siglt til eyjanna frá Höfðaborg og Namibíu og tekur ferðin fimm til sex daga. 

 

 

Bjarnarey

Bjarnarey er syðsta eyjan í eyjaklasanum við Svalbarða. Eyjan er í vesturhluta Barentshafs. Eyjan er náttúruverndarsvæði síðan 2002. Lengi hefur verið barist um yfirráð yfir eyjunni sem vekur athygli því þarna er ekki mikið annað en klettar og töluverðar líkur á geislavirkni vegna þess að undan eyjunni liggur flak af gömlu kjarnorukafbát.

Og þá að því hvernig maður kemst til Bjarnareyjar: Daglega er flogið til Longyearbyen á Svalbarða frá Ósló og Tromsö. Þegar þangað er komið þarf að húkka far með rannsóknarteymum sem gætu átt leið á eyjuna eða öðrum skipum í einkaeigu. 

 

Bouvet

 Eyjan Bouvet er 1609 kílómetrum í norður frá Antartíku. Eyjan er þakin ís og er í raun einn stór jökull. Á veturna er hafís allt í kringum Bouvet. Öll eyjan er náttúruverndarsvæði svo ef þú hefur ekki ansi góða ástæðu til að sigla þangað þá munu norsk stjórnvöld stöðva þig. Ef þú færð rannsóknarleyfi þá þarftu að sigla að eyjunni og fara þaðan í þyrlu enda eru engar bryggjur.

 

Bishop Rock

 Heimsmetabók Guinnes segir eyjuna vera minnstu eyju í heimi með húsi. Eyjan er 48 kílómetra frá Englandi. Árið 1847 hófu verkfræðingar byggingu á vita á eyjunni en stormur skolaði vitanum út á hafsauga. Næsta tilraun var gerð 1858 og sá viti stendur enn. 

 

 

 

 

 

Boreray

Eyjan Boreray er 60 mílum frá meginlandi Skotlands. Aðaleyjan fór í eyði þegar uppskeran brást árið 1930. Það kom því fornleifafræðingum mjög á óvart þegar kom í ljós að sú afskekktasta, Boreray hafði einu sinni verið í byggð í fornöld. Að komast á eyjuna er vesen. Það þarf leyfi frá yfirvöldum í Skotlandi. Ef leyfið fæst þá er erfitt að komast að eyjunni sökum óhagstæðra skilyrða á hafi. Samkvæmt upplýsingum um eyjuna kemur fram að fleiri hafa komist á toppinn á Everest heldur en á Boreray síðan talningar hófust 1957.

North Sentinel Island

Eyjan North Sentinel er 644 kílómetra í burtu frá Myanmar. Eyjan er ein af 572 eyjum Andaman keðjunnar í Indlandshafi, Bengalflóa. Allt í kringum eyjuna eru hættuleg rif en það er ekki aðalatriðið. Það eru íbúar eyjunnar sem eru aðalhættan. Þeir vilja ekki eiga nein samskipti við umheiminn og bregðast illa við friðsamlegum heimsóknum. Og að komast þangað er nánast ómögulegt og ekki ráðlagt. Hér er grein um örlög sjómanna sem villtust óvart á eyjuna.

 

 

 

Rockall 

Eyjan Rockall er 435 kílómetrum frá Írlandi. Eyjan er toppur á óvirku eldfjalli sem stendur í hafinu og nær 20 metra yfir sjávarmál. En vegna óhagstæðra hafstrauma hefur ölduhæðin oft náð 29 metrum. Að komast að eyjunni er flókið og dýrt og er algjörlega háð veðri.

 

 

Stikkorð: Ferðalög  • Hættulegt  • Eyjar