*

Veiði 26. nóvember 2016

Sjö með meira en 200 laxa á stöng

Engin laxveiðiá skilaði fleiri löxum á stöng síðasta sumar en Ytri-Rangá en mesta niðursveiflan milli ára var í Andakílsá og Fnjóská.

Trausti Hafliðason

Veiðimálastofnun birti í október bráðabirgðatölur fyrir veiðisumarið 2016. Samkvæmt þeim veiddust um 53.600 laxar í ám landsins. Veiðin var um 18.100 löxum minni en hún var sumarið 2015, þegar 71.700 laxar veiddust. Í þessum samanburði má hafa í huga að veiðisumarið 2015 var það fjórða besta frá aldamótum og reyndar það fjórða besta síðan farið var að taka veiðitölur saman árið 1974.

Eins og margir laxveiðimenn vita kemur lokaskýrsla Veiðimálastofnunar um laxveiðina sumarið 2016 ekki út fyrr en í júní á næsta ári. Líkt og undanfarin ár tekur Viðskiptablaðið smá forskot á sæluna og rýnir í veiðitölur á vefsíðu Landssambands veiðifélaga (LV), angling.is. Viðskiptablaðið hefur fengið upplýsingar um lokatölur í 46 laxveiðiám og reiknað veiði á stöng en sá mælikvarði gefur nokkuð góða mynd af veiði í ám. Veiði á stöng er líka besti mælikvarðinn til þess að bara saman laxveiðiár. Fjöldi stanga í ám getur verið misjafn milli ára og hefur Viðskiptablaðið reynt eftir bestu getu að taka tillit til þess.

153 laxar að meðaltali

Að meðaltali veiddust 153 laxar á stöng í þessum 46 ám og er það töluvert minna en árið 2015 þegar 202 laxar veiddust á stöng í viðmiðunarám LV. Árið 2014 veiddust 89 laxar að að meðaltali á stöng, árið 2013 var meðaltalið 182 laxar og árið 2012 var það 92 laxar. Þessar sveiflur í veiðinni undanfarin ár eru gríðarlega miklar. Enginn hefur getað útskýrt lang líklegast er að skýringuna sé að finna í sjónum. Ef lífsskilyrðin í hafinu eru léleg kemur það mjög harkalega niður á laxinum.

Eins og komið hefur fram var veiðin í fyrra ótrúlega góð. Alls voru átján laxveiðiár með meira en 200 laxa á stöng en í sumar rufu sjö ár 200-laxa múrinn. Þess má geta að sumarið 2014 var einungis ein á með meira en 200 laxa á stöng en það var Laxá á Ásum. Frá árinu 2013 til 2015 bar Laxá í Ásum höfuð og herðar yfir aðrar ár þegar kom að veiði á stöng. Á því varð breyting síðasta sumar.

Ytri-Rangá á toppnum

Ytri-Rangá var sú á sem skilaði flestum löxum á stöng síðasta sumar, eða 488. Alls veiddust ríflega 9.300 laxar í ánni síðasta sumar, sem er þriðja besta veiðin þar frá árinu 2006. Besta veiðin var 2008, þegar um 14.300 löxum var landað og árið 2009 lönduðu veiðimenn ríflega  10.700 löxum.

 

Næstbesta veiði á stöng var í Miðfjarðará eða 482 laxar. Veiðin í Miðfjarðará hefur verið hreint ótrúlega góða síðustu tvö ár. Árið í 2015 var algjört metár en þá veiddust yfir 6 þúsund laxar. Síðasta sumar veiddust ríflega 4.300 laxar í ánni sem er næstmesta veiði í Miðfjarðará frá upphafi.

Í þriðja sæti á listanum er Laxá í Dölum með 323 laxa á stöng. Óhætt er að segja að Laxá í Dölum hafi vaknað úr dvala síðustu tvö ár. Á árunum 2003 til 2010 veiddust að meðaltali 1.547 laxar í Laxá í Dölum á ári. Eftir þetta góða tímabil tók veiðin dýfu og á árunum 2011 til 2014 veiddust að meðaltali 466 laxar í ánni. Botninum var náð 2014 þegar 216 laxar veiddust. Sumarið 2015 varð algjör viðsnúningur þegar 1.578 laxar veiddust og síðasta sumar var veiðin enn betri því alls var 1.711 löxum landað í Dölunum. Er það sjötta besta veiðin í ánni frá árinu 1974.

Í fjórða sæti er Laxá á Ásum með 310 laxa á stöng og Haffjarðará er í fimmta sæti með 218 laxa. Í Haukadalsá veiddust alls 217 laxar á stöng. Haukadalsá er jafnframt sú á sem bætti sig mest milli ára en þar jókst veiðin úr 134 löxum á stöng sumarið 2015 í 217 laxa síðasta sumar, eða um 62%.

Á milli áranna 2015 og 2016 dalaði veiðin mest í Andakílsá og Fnjóská eða um 70%. Andakílsá fór úr 190 löxum á stöng í 57 og Fnjóská úr 82 löxum í 25.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Laxveiði  • Lax  • Stangaveiði