*

Ferðalög & útivist 10. desember 2013

Sjö ráð þegar fólk er eitt á ferðalagi

Þegar fólk er eitt á ferðalagi þarf að huga að ýmsum atriðum.

Fólk getur fengið heilmikið út úr ferðalögum sé það eitt á ferð. Upplifun fólks er allt önnur þegar það fær algjört næði til að skoða sig um og ákveða hvað það gerir og hvenær án þess að þurfa að taka tillit til annarra ferðafélaga.

Á CNN skrifar greinarhöfundurinn Nikki Bayley um reynslu sína af því að ferðast einn en hann hefur ferðast til meira en 30 landa á síðustu 21 ári og alltaf einn. Bayley fór fyrst til Grikklands einn þegar hann var 22 ára og þá var ekki aftur snúið. Hann heldur því fram að það að ferðast einn sé besta leiðin til að sjá heiminn.

Bayley deilir sjö ráðum til fólks sem hyggst leggja land undir fót með engum nema sjálfu sér:

Þér verður að líka vel við ferðafélagann, sjálfa(n) þig. Fólk sem ferðast eitt þarf að horfast í augu við sjálft sig og treysta á sig. Þannig kynnist fólk sjálfu sér vel. Sem er auðvitað bara frábært.

Vertu sjálfselsk(ur). Á ferðalagi þegar enginn er með nema þú þarf ekki að taka tillit til neins. Njóttu þess.

Vertu sjálfsörugg(ur). Þegar maður ferðast einn er ekki í lagi að standa úti á götuhorni með stórt kort og líta út fyrir að vera týndur. Betra er að líta út fyrir að vita hvað maður er að gera, þó það sé ekki endilega raunin. Ef þú þarft að skoða kort gerðu það í einrúmi ef hægt er.

Vertu vakandi fyrir hættum. Ekki vera of hrædd(ur) enda sýnir tölfræði að ferðamenn eru ekki endilega í meiri hættu en þeir sem heima sitja. Gott er þó að nota almenna skynsemi eins og alltaf. 

Farðu út að borða. Þegar fólk borðar á ferðalögum er algengt að það fái sér skyndibita sé það eitt á ferð, í stað þess að fara á almennilegan veitingastað. En upplifunin að borða ein(n) á veitingastað er algjörlega þess virði því matarupplifunin verður meiri þegar áherslan er bara á matinn en ekki borðfélaga. 

Ekki hanga á samfélagsmiðlum allan tímann. Vertu á staðnum andlega en ekki hanga á Skype, Facebook, Twitter eða Instagram allt fríið. Gefðu líka fólki tækifæri til að sakna þín á meðan þú ert í burtu. 

Þú sparar ekki pening. Það er dýrara að ferðast einn því enginn deilir hótelreikningi eða öðrum kostnaði með þér. En hefur svo mikla kosti að ferðast einn að það ætti að vera þess virði. 

Stikkorð: Ferðalög  • Einhleypir