*

Ferðalög & útivist 4. apríl 2013

Sjö skemmtilegustu flugvellir í heimi

Má bjóða þér á tónleika? Hvað með á listasafn eða í sund? Sjö skemmtilegustu flugvellir í heimi bjóða upp á þetta allt og meira til.

Flugvellir eru ekki skemmtilegustu staðir í heimi en þó eru sumir sem reyna hvað þeir geta til að létta farþegum lífið. Lítum á þá sjö sem komast á lista CNN yfir skemmtilegustu flugvelli í heimi.

Alþjóðlegi flugvöllurinn í San Francisco, Bandaríkjunum.

Í dag er ekki óalgengt að finna lítil listasöfn á flugvöllum. En SFO (San Francisco International) fór að bjóða upp á listsýningar fyrir meira en 30 árum. SFO safnið samanstendur af 20 galleríum um allan flugvöll.

 Alþjóðlegi flugvöllurinn í Nashville, Bandaríkjunum.

Elvis Presley, Dolly Parton og Johnny Cash voru öll með upptökustúdíó í borginni svo það er ekki séns að flugvöllurinn sé súr. Enda er hann það ekki. Flugvöllurinn býður upp á tónleika á fjórum sviðum víðsvegar um flugvöllinn. Yfir 100 ókeypis tónleikar fara fram á hverju ári á flugvellinum.

Alþjóðlegi flugvöllurinn í Sydney.

Plöntur má eflaust finna á ýmsum flugvöllum en á flugvellinum í Sydney er lystigarður með meira en 8400 tegundir af plöntum. Á göngu um garðinn má finna veitingastað og heilsulind þar sem hægt er að fara í nudd eða í sturtu.

Alþjóðaflugvöllurinn í Munchen, Þýskalandi.

Borgin er auðvitað fræg fyrir októberfestina og á flugvellinum er að sjálfsögðu bjórgarður með sína eigin bruggverksmiðju. Þegar mesta stuðið er í garðinum er boðið upp á lifandi tónlist.

Singapore Changi flugvöllur. 

Stjórnendur flugvallarins voru með þeim fyrstu til að bjóða upp á ókeypis WiFi svæði. Það er einnig hægt að fara í sund og heitan pott uppi á þaki. Listasafn, leikvöllur fyrir börnin og göngutúr í náttúrunni er einnig í boði. Og ef ferðalangur þarf að bíða í meira en fimm klukkustundir þá er boðið upp á ókeypis skoðunarferð um Singapore.

Seoul-Incheon flugvöllur.

Incheon flugvöllur í útjaðri Seúl í Suður-Kóreu þykir hinn þægilegasti. Hann vann verðlaunin „Airports Council International world's best airport in air service quality” sjö ár í röð. Á flugvellinum er til dæmis ísskautahöll, spilavíti og heilsulind. Í fimm mínútna akstursfjarlægð geta þeir sem vilja farið í golf á golfvelli flugvallarins.

Alþjóðlegi flugvöllurinn í Hong Kong.

Á flugvellinum er bíósalur með engu venjulegu bíótjaldi en það er 13,8 metrar á hæð og 22,4 metrar á breidd. Bíóhúsið er opið bæði fyrir farþega og íbúa Hong Kong. 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Flugvellir  • Skemmtun