*

Menning & listir 8. október 2012

Sjóræningjaruddar í Borgarleikhúsinu

Sýningin Gulleyjan er skrautleg og skemmtileg sýning fyrir börn og fullorðna.

Þeir eru skrautlegir og subbulegir sjóræningjarnir sem stíga á stokk í Borgarleikhúsinu í uppsetningunni á Gulleyjunni. Leikritið sló í gegn á Akureyri í fyrra og ekki er búist við síðri aðsókn núna. Sýningin er um ævintýraferðalag á skipinu Hispanjólu þar sem leiðin liggur til Gulleyjunnar. Hinsvegar breytast áætlanir þegar sumir skipsverjanna eru ekki eins og þér sýnast.

Á Gulleyjunni geta fullorðnir skemmt sér konunglega eins og þau yngri. Tónlistin var samin af Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni og var tilnefnd til Grímuverðlaunanna í vor. Lögin er skemmtileg og fjölbreytt. Foreldrar mega allaveganna búast við því að raula skyndilega “Uppreisn um borð” á leiðinni heim úr leikhúsinu.

Björn Jörundur Friðbjörnsson leikur eitt af aðalhlutverkunum og það má alveg segja að hann sé punkturinn yfir i-ið. Röddin passar vel við sjóræningjafantinn hann Langa-Jón. Gulleyjan, í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar, er skrautleg og skemmtileg sýning sem er fyndin en um leið spennandi.  

Höfundur: Edda Hermannsdóttir, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. edda@vb.is 

Stikkorð: Gulleyjan