*

Sport & peningar 2. janúar 2016

Skammast sín fyrir Laugardalsvöll

Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson segist hafa farið víða með landsliðinu og aðstaðan á Laugardalsvelli sé sú lang lélegasta.

Trausti Hafliðason

Uppselt hefur verið á hvern einasta landsleik undanfarin ár og hefur það valdið því að umræða hefur farið af stað um það hvort stækka eigi völlinn og bæta aðstöðuna.

„Fyrir það fyrsta þá skammast maður sín alltaf fyrir hvern einasta landsleik," segir  Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. „Ef við tökum bara búningsaðstöðuna þá er hún byggð fyrir tugum árum síðan þegar lið voru með hámark 16 leikmenn í hópnum hjá sér. Núna eru 23 leikmenn og hjá mörgum landsliðum eru jafn margir starfsmenn og leikmenn.  Allur þessi hópur kemst ekki inni í þessa litlu búningsklefa. Stundum sér maður fjörutíu töskur úti á gangi því það er ekki hægt að koma þeim fyrir inni í klefanum. Maður skammast sín svolítið fyrir að bjóða upp á þessa aðstöðu.

Ég hef farið víða með landsliðinu og aðstaðan á Laugardalsvellinum er sú lang lélegasta. Við getum ef til vill ekki borið okkur saman við stóru þjóðirnar, sem eiga fullt af peningum, en það er samt svolítið fúlt að lið sem spila jafnvel í 2. deildinni á Englandi séu með miklu betri aðstöðu en boðið er upp á á þjóðarleikvangi Íslands. Stemningin á Laugardalsvelli hefur verið frábær í undanförnum landsleikjum en hún væri enn þá betri ef hlaupabrautin væri ekki þarna og völlurinn hannaður sérstaklega fyrir fótboltaleiki.“

Nánar er rætt við Heimi í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.