*

Bílar 8. september 2016

Skandinavískur lúxus

Nýr Volvo S90 er kom til landsins á þriðjudag. Við reynsluókum bílnum á Spáni fyrir skömmu.

Í þessum mánuði mun nýtt flaggskip Volvo koma í búðir um allan heim. S90 var frumsýndur í lok síðasta árs. Helstu keppinautar S90 eru Audi A6, BMW 5 og Mercedes-Benz E-Class. S90 tekur við af S80 sem hefur verið framleiddur frá 1998. Á árunum 1990-1998 hét bíllinn 900 en undir lok þess tímabils fékk hann reyndar heitið S90.

Brimborg, umboðsaðili Volvo á Íslandi fékk fyrsta S90 bílinn á þriðjudag. Við á Viðskiptablaðinu fengum að reynsluaka bílnum á Suður-Spáni fyrir skömmu.

Niðurstaða reynsluaksturins er sú að Volvo S90 er afbragðsbíll sem mun án nokkurs vafa njóta viðlíka hylli og XC90 jeppinn frá Volvo. Hönnun hans er mjög vel heppnuð og allur frágangur að innan til fyrirmyndar. Eftir sex klukkustunda akstur er í raun ekkert sem hægt er að finna að í S90.

Útlitið

S90 er sportlegur en um leið fágaður. Framendinn er nánast alveg eins og á sportbílnum Concept Coupe sem var frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt haustið 2013 og markaði leiftursókn Volvo. Afturendinn er stílhreinn og ljósin eru sótt í hugmyndabílinn. Þeir hjá Volvo kalla framljósin hamar Þórs, eins og á fleiri bílum sínum. Allir sanngjarnir menn hljóta að samþykkja að hönnun S90 sé vel heppnuð.

Innanrými

Þegar sest er upp í bíllinn leynir sér ekki að hann er skandinavískur. Margt er sótt í stóra bróður XC90, sem er hið besta mál. Sætin eru þægileg og maður er fljótur að kunna vel við sig. Þeir bílar sem við fengum að reynsluaka voru búnir öllum mögulegum aukabúnaði. Upplýsingaskjárinn á milli framsætanna er stór og öll grafík með ágætum. Það tekur alltaf svolitla stund að læra á stjórnbúnaðinn í nýjum bíl en það kom fljótt. Auðvelt var að tengja símann upplýsingakerfinu, sem getur stundum verið vandamál í bestu bílum. Skemmtileg nýjung er að hafa Spotify innbyggt í bílnum, en hann er búinn þráðlausu neti.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Volvo  • Volvo S90  • S90