*

Matur og vín 18. maí 2013

Skannaðu flöskumiðann

Þeir sem muna ekki hvað góðu vínin heita geta hætt að hafa áhyggjur og náð sér í smáforrit. Það getur hjálpað til.

Minnistap er þekkt vandamál tengt drykkju en nú er komið smáforrit (app) við því frá sprotafyrirtækinu Vivino. Hugmyndin er stórsnjöll og gengur út á að uppgötvi menn vín sem rennur ljúflega niður þarf einungis að taka mynd af flöskumiðanum. Skýlæg þjónusta Vivino auðkennir svo vínið sem þar með hverfur ekki úr minni neytandans. Til viðbótar er svo möguleiki á að deila með fésbókarvinum, gefa eða lesa einkunn o.s.frv.

Virkar enn illa

Sem stendur er appið í frumútgáfu og virkar ekki ýkja vel þannig að í um 80% tilfella kemur upp tillaga að röngu víni eða röngum árgangi. Ef drykkjumaðurinn er sæmilega ritfær er hinsvegar hægt að skila inn leiðréttingu sem uppfærist í gagnagrunninum. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er ný útgáfa á leiðinni með OCR (OpticalCharacter Recognition) sem bæta mun leshæfni hugbúnaðarins. Þegar fram líða stundir er svo vitaskuld hægt að sjá fyrir sér ýmsa möguleika viðskiptalega sem og fræðandi, a.m.k. í löndum þar sem verslunarfrelsi með löglegar vörur er í gildi.

Stikkorð: Vivino