*

Sport & peningar 6. febrúar 2021

Skellti 440 milljónum á Tampa

Veðbankar spá Kansas sigri gegn Tampa Bay í Super Bowl-leiknum sem fer fram á morgun.

Kansas City Chiefs og Tampa Bay Buccaneers mætast í úrslitaleik NFL-deildarinnar, Super Bowl, á morgun. Leikurinn fer fram á Raymond James Stadium í Tampa og er þetta í fyrsta skiptið í sögu Super Bowl, sem annað liðið leikur á heimavelli. Er það tilviljun því ákveðið er með nokkurra ára fyrirvara hvar þessir leikir fara fram. Super Bowl hefst klukkan 23.30 á íslenskum tíma.

Það kemur engum á óvart að Kansas sé að leika til úrslita enda eru þeir ríkjandi meistarar. Leikstjórnandi liðsins, hinn 25 ára gamli Patrick Mahomes, er af flestum talinn besti leikstjórnandi amerísks fótbolta í dag. Síðasta sumar undirritaði hann nýjan samning, sem er einstakur í sögu deildarinnar. Samningurinn er til 10 ára og hljóðar upp á 503 milljónir dollara eða 65 milljarða íslenskra króna.

Árangur Tampa kemur hins vegar mjög á óvart því fáir spáðu Tampa-liðinu svona góðu gengi jafnvel þótt liðið hafi krækt í leikstjórnandann Tom Brady fyrir tímabilið. Brady er goðsögn í amerískum fótbolta enda sex sinnum orðið Super Bowl meistari með New England Patriots. Fáir áttu samt von á því að hann næði að koma sínu nýja liði í úrslitaleikinn á sínu fyrsta tímabili enda orðinn 43 ára gamall.

Eins og áður sagði þá er Kansas ríkjandi meistari eftir að hafa sigrað San Francisco 49ers í Super Bowl fyrir ári síðan. Var þetta annar titill liðsins en áður hafði liðið orðið Super Bowl-meistari árið 1969. Tampa Bay hefur einu sinni orðið Super Bowl-meistari en það var árið 2002.

Veðbankarnir og Mattress Mack

Allir veðbankar gera ráð fyrir að Kansas sigri. Stuðlarnir eru eins og gengur misjafnir á milli veðbanda. Algengt er að stuðullinn fyrir Kansas-sigur sé frá 1,4 upp í 1,65 og 2.20 til 2.40 fyrir Tampa sigur.

Í Bandaríkjunum tíðkast svokallað „spread" í veðmálum, þar sem öðru liðinu er gefin ákveðin forgjöf. Í úrslitaleiknum núna er algengt að þetta „spread" hjá veðbönkum sé +3,5 hjá Tampa, sem þýðir að það er -3,5 hjá Kansas. Þetta þýðir í raun að ef fjárhættuspilari veðjar á Tampa þá er liðið með 3,5 stig í forgjöf áður en leikurinn hefst og ef veðjað er á Kansas þá er liðið 3,5 stigum undir í byrjun. Þetta breytir stuðlunum og er algengur stuðull fyrir Tampa með +3,5 í forgjöf 1,9 en 1,95 hjá Kansas miðað við -3,5 í „spread".

Jim McIngvale á hæsta einstaka veðmálið að þessu sinni. Greint var frá því á fimmtudaginn að Jim, sem rekur húsgagnaverslanir í Texas og er oft kallaður Mattress Mack, hefði veðjað 3,4 milljónum dollara (440 milljónir króna) á sigur Tampa með 3,5 í forgjöf. Ef þetta fellur með honum þá fær Jim 6,2 milljónir dollara (800 milljónir króna).