*

Bílar 26. desember 2016

Skemmtileg stemning í bílnum

Jón Viðar Ásmundsson ekur um á nýjum Mercedes-Benz V Class sem hann fékk afhendan í byrjun sumars.

Róbert Róbertsson

Jón Viðar Ásmundsson ekur um á nýjum Mercedes-Benz VClass sem hann fékk afhendan í byrjun sumars. Hann er bílstjóri 41 á A-stöðinni og hefur ekið bíl síðan hann var 11 ára gamall þegar hann ók jeppa föður síns í Veiðivötnum.

Bíllinn tekur sjö farþega og er eini leigubíllinn á Íslandi sem settur er upp með svokallaðri ráð- stefnu uppsetningu í V-Class en sætin snúa á móti hvert öðru aftur í. „Þessi uppsetning er hugsuð fyrir við- skiptafólk sem þarf að ferðast með miklum þægindum og hafa möguleika á að funda í bílnum. Auðvitað nýtist þetta öllum sem vilja ferðast með miklum þægindum. Það er limmó bragur á bílnum. Fólk sem ég tek upp í bílinn nýtur miklu meiri félagsskapar af hvert öðru með því að sitja svona. Það verða mun oftar samræð- ur í bílnum og skemmtilegra andrúmsloft.

Fólk tekur mjög vel í þetta og það myndast skemmtileg stemning í bílnum,“ segir Jón Viðar.

 Alvöru lúxuskerra 

Bíllinn er mjög vel búinn með hvítu, flottu Nappa leðri, 360°myndavél, Burmaster hljóðkerfi og sjálfvirkri opnun á öllum hurð- um. Bíllinn er með 2,2 lítra dísilvél með tvöfaldri forþjöppu sem skilar 190 hestöflum og togið er feikigott eða 450 Nm. „Ég er gríðarlega ánægður með bílinn. Ég keyri mest með farþega á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar en einnig er ég líka með mikið af dagsferðum á Gullfoss, Geysi og suðurströndina með erlenda ferðamenn. Það er mjög gott að keyra þennan bíl enda alvöru lúxuskerra frá þýska lúxusbílaframleiðandanum. Hann er mjög þéttur og búinn hliðarvindvörn þannig að ef það koma miklar vindhviður þá heldur hann sér vel og þetta kerfi vinnur ótrúlega vel. Hann étur vindinn í sig,“ segir Jón Viðar ánægður.

Byrjaði að keyra 11 ára

Jón Viðar hefur starfað sem atvinnubílstjóri síðan 1996 en þá var hann tvítugur að aldri. „Ég ók fyrsta bílnum þegar ég var 11 ára gamall,“ segir Jón Viðar og hlær. „Það var GMC Suburban árgerð 1976 á 36 tommu dekkjum. Hann var með 200 hestafla Benz mótor sem var búið að setja ofan í húddið. Þaðan kemur Benz-dellan. Þetta var uppi í Veiðivötnum og ég var þarna í veiðitúr með föður mínum. Hann leyfði mér að taka í bílinn og ég keyrði nú reyndar ansi góðan rúnt. Eitt sinn mætti ég löggunni þarna og þeir sáu mig undir stýri en veifuðu mér bara. Þetta myndi líklega ekki ganga upp í dag. Ég keyrði þennan bíl nokkur ár á barns- og unglingsaldri en eignaðist fyrsta jeppann minn Toyota Hilux árgerð 1989, 36 tommu breyttan, þegar ég var 18 ára,“ segir hann.

Nánar má lesa um málið í Atvinnubílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift.

Stikkorð: Mercedes Benz  • atvinnubílar