*

Bílar 16. október 2015

Skemmtilegast að keyra stóru trukkana

Theodóra Níelsdóttir hefur ekið stórum flutninga- og dráttarbílum landshorna á milli og kallar ekki allt ömmu sína.

„Ég tók meiraprófið í Danmörku en þar bjó ég í nærri því 18 ár. Ég byrjaði að keyra fyrir þýskt fyrirtæki og ég var að flytja Volvo bíla hingað og þangað um Evrópu. Ég keyrði því Volvo bíla til viðskiptavina víðs vegar um álfuna og svo var tekin lest, ferja eða flugvél til baka.

Ég keyrði síðan „trailer“ bíla milli Danmerkur og Noregs í tæpt ár en flutti síðan heim til Íslands árið 2005. Þá var ég ráðin til Póstsins og hef ekið flutningabílum fyrir fyrirtækið í fimm ár. Ég hef ekið bæði innanbæjar og utanbæjar, landshornanna á milli,“ segir Theodóra Níelsdóttir atvinnubílstjóri, eða Tedda.

Einmanaleg keyrsla á nóttinni

Tedda hefur ekið á milli Reykjavíkur og Egilsstaða í allt sumar. „Það er varla hægt að aka mikið lengra en það hér innanlands. Þá er lagt af stað klukkan hálftíu á kvöldin og komið um áttaleytið á morgnana. Þá legg ég mig og tek níu tíma hvíldina sem ætlast er til að taka. Svo tæmi ég pósthúsin á rúntinum til baka seinnipartinn og kem til Reykjavíkur um klukkan 3 til 4 á næturnar.

Þetta er oft svolítið einmanaleg keyrsla svona á nóttinni og ekki mikið um mannleg samskipti þá. Það eru ekki margir sem maður getur spjallað við í símanum. Það væri ekki vinsælt að fara að hringja í vinkonur eða vini á þeim tíma sólarhringsins,“ segir hún brosandi en bætir við að flutningabílstjórar sem hún mæti á leiðinni taki oft upp símann og hringi í handfrjálsa búnaðinum sín á milli til að hafa smá félagsskap á löngum leiðum.

Nánar er rætt við Teddu í Atvinnubílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Atvinnubílar