*

Tölvur & tækni 20. febrúar 2013

Skemmtilegasti svindlkóðinn á Filmu.is

Ef Konami kóðinn svokallaði er sleginn inn á efnisveitunni filma.is gerist eitthvað sniðugt.

Konami kóðinn svokallaði er líklega frægasti svindlkóði tölvuleikjasögunnar. Kóðinn kom fyrst við sögu í leiknum Gradius sem Konami gerði fyrir Nintendo. Síðan þá hefur kóðinn komi við sögu í fjöldamörgum leikjum frá mörgum mismunandi framleiðendum. Kóðinn var t.d. virkur í tölvuleiknum Contra og er af sumum þekktur sem Contra-kóðinn. Hann er nú orðinn hluti af nördamenningunni.

Fjölmargar vefsíður eru þannig hannaðar að ef kóðinn er sleginn gerist eitthvað sniðugt og er íslenska efnisveitan filma.is nýjasta slíka vefsíðan. Með því að slá kóðann inn hljómar lagið Harlem Shake eftir Baauer, líkt og í fjöldamörgum myndböndum sem fara nú sem eldur í sinu um vefinn. Ekki nóg með það heldur hristist fyrst einn gluggi á síðunni og svo hristast þeir allir.

Hasselhoff grín á Filmu.is

„Ég veit ekki hvort við erum fyrsta eða eina íslenska síðan sem gerum kóðan virkan,“ segir Erlingur Þorsteinsson hjá Filmu. „Ég rakst bara á grein um kóðann og fannst þetta fyndið og ákvað að setja hann inn á síðuna. Þetta er reyndar ekki fyrsta grínið sem við gerum á síðunni. Um tíma var það þannig að ef notandi sló inn leitarorðin „David Hasselhoff“ kom upp mjög stór og flott mynd af Hasselhoff í stað venjulegra leitarniðurstaðna.“

Eins og áður segir er filma.is ekki eina síðan sem lætur eitthvað sniðugt gerast þegar kóðinn er sleginn inn. Ef hann er t.d. sleginn inn í Google Reader, rss þjónustu Google, litast vinstri hluti síðunnar blár og litlar ninjur stinga fram kollinum. Ef kóðinn er sleginn inn á síðunni digg.com má sjá litla auglýsingu fyrir Bluth's Frozen Bananas, sem aðdáendur sjónvarpsþáttaraðarinnar Arrested Development þekkja vel og ef kóðinn er sleginn inn á síðunni Gamespot.com fer notandinn strax á færsluna fyrir leikinn Contra.

Kóðinn sjálfur er ekki flókinn. Með því að nota örvahnappana á lyklaborðinu á að slá inn upp upp niður niður vinstri hægri vinstri hægri og svo á stafina a og b (↑ ↑ ↓ ↓ ← → ← → B A). Hér má svo sjá lista yfir þær síður sem gera eitthvað skemmtilegt ef kóðinn er sleginn inn.

Stikkorð: Tölvur  • Filma.is  • Filma