*

Ferðalög & útivist 22. mars 2014

Skíðað í lausamjöll

Miklar framfarir hafa verið í hönnun skíða sem notuð eru í lausamjöll. Þau eru nú breiðari en áður.

Arnar Sigurðsson

Einn stærsti kosturinn við Klettafjöllin í Bandaríkjunum er snjórinn og þá nánar tiltekið s.k. púðursnjór sem hentar miðlungs og betri skíðamönnum afar vel sér í lagi utan troðinna brauta en einnig mætti nefna ameríska gestrisni og þjónustulund sem alltaf er til staðar. Þess skal þó getið að troðnar brautir eru að sjálfsögðu einnig í boði í öllum flokkum. Fyrir byrjendur er afar hentugt að taka fyrstu skrefin í mjúkum snjó en bréfritari hefur aldrei náð að upplifa hart færi í Klettafjöllunum. Besti tíminn til að upplifa púðursnjó, eða léttari útgáfuna ,,kampavínspúður“ er seinni hluta janúar auk febrúar þó reyndar snjói einnig mikið í mars sem þó er sólríkari. Sá er þetta ritar hefur undanfarinn aldarfjórðung ferðast árlega til flestra stærstu skíðasvæða beggja vegna Atlantshafsins.

Gríðarleg framför hefur orðið í skíðum, nánar til tekið s.k. „carving“ skíðum þannig að gömlu tveggja metra tunnustafirnir eru ámóta nýtanlegir og pastellituðu samfestingarnir sem lituðu brekkurnar eins og M&M töflur hér áður fyrr. Grunnhugmyndin er nokkuðeinföld og hefur verið mönnum ljós alla tíð, þ.e. að með því að skíðin eru mjórri í miðju heldur en endum, þarf lítið annað að gera en að halla skíðunum til að þau taki/skeri beygju í snjónum eftir því sem miðflóttaraflið frá þyngd skíðamannsins eykst. Markmiðið er semsagt að beygja með sem minnstri bremsu til að halda sem bestum hraða. Framförin var því í raun stigsmunur, þ.e. með því að auka mun á breidd skíðanna, eykst beygjuradíus sem því nemur.

Stikkorð: Skíði