*

Sport & peningar 5. júlí 2015

Skilur Ronaldo eftir í rykinu

Hnefaleikakappinn Floyd Mayweather barðist tvisvar á síðasta ári og þénaði 300 milljónir dollara.

Forbes tímaritið birti í síðasta mánuði lista sinn yfir launahæstu íþróttamenn ársins 2015 og þar trónir hnefaleikakappinn Floyd Mayweather á toppnum. Á síðustu 12 mánuðum þénaði hann sláandi 300 milljónir Bandaríkjadala og tókst þar með að sprengja launaskala íþróttamanna algerlega.

Næst á eftir kom andstæðingur hans í stærsta boxbardaga sögunnar, Manny Pacquaio, með 160 milljónir dollara. Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo er síðan langt á eftir tvímenningunum í 3. sætinu með „litlar“ 79,6 milljónir dollara.

Mayweather hefur verið launahæsti íþróttamaður heims þrjú af síðustu fjórum árum, en í ár verpti gullgæsin sem aldrei fyrr. Sú spurning getur þó vaknað: hvernig fer boxari sem keppir tvo bardaga á ári að því að þéna nánast fjórfalt meira heldur en skærasta stjarna vinsælustu íþróttar heims, Cristiano Ronaldo, sem spilar u.þ.b. 60 fótboltaleiki á ári?

Bardaginn gegn Pacquaio

Bardagi Mayweather og Pacquaio malaði gull og námu tekjurnar af honum samtals 600 milljónum dollara. Slíkt hefur aldrei sést áður. Þessar miklu tekjur stafa af því að í stórum hnefaleikabardögum greiða áhugamenn fyrir hvert áhorf (e. pay-per-view). Öll met voru slegin þar sem 4,4 milljónir manns borguðu 90 dollara hver til að horfa á bardagann og námu þær tekjur því um 400 milljónum dollara. Gamla tekjumetið var 150 milljónir dollara, einnig úr bardaga með Mayweather. Ekki skrítið að viðurnefnið hans sé „Money“.

Meðal annarra tekna af bardaganum má nefna miðasölutekjur upp á 73 milljónir dollara, en miðarnir voru fokdýrir. Auglýsingatekjur voru um 13 milljónir dollara og sjónvarpsrétturinn til erlendra sjónvarpsstöðva um allan heim var seldur á tugi milljóna dollara. Bardagakapparnir og umboðsmenn þeirra fengu um 400 milljónir dollara af heildartekjunum, þar af fékk Mayweather 60 prósent. Fyrirfram voru honum tryggðar 100 milljónir dollara en hann hefur endað í u.þ.b. 215 milljónum. Ekki slæmt fyrir eina kvöldstund.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Ronaldo  • Íþróttir  • knattspyrna  • hnefaleikar  • Mayweather