*

Menning & listir 26. maí 2020

Skítamórall heldur tónleika í Eldborg

Afmælistónleikar Skítamórals verða haldnir í Eldborgarsal Hörpunnar föstudaginn 26. júní næstkomandi.

Skítamórall hefur tilkynnt tónleika í Hörpunni þann 26. júní næstkomandi en hljómsveitin fagnar 30 starfsafmæli sínu. Tónleikarnir verða haldnir í Eldborgarsalnum en miðar fást á vef Hörpunnar.

Salnum verður skipt í svæði miðað við gildandi hámarksfjölda sem líkur eru á að verði að minnsta kosti 500 manns á þessum tíma. Inngangar í salinn verða aðgreindir fyrir mismunandi hópa og sömuleiðis salerni og veitingasala. Nokkur skilgreind svæði verða í boði fyrir þá sem óska eftir sætum með tveggja metra fjarlægð. 

Skítamórall  var stofnuð árið 1989 af þeim Gunnari Ólasyni söngvara og gítarleikari, Herberti Viðarsyni bassaleikara, Jóhanni Bachmanni Ólafssyni trommara og Arngrími Fannari Haraldssyni gítarleikara. Þeir eru allir fæddir árið 1976 og koma frá Selfossi. Það var hálfbróðir Arngríms, Einar Bárðarson sem lagði til að nafnið Skítamórall yrði notað. 

Hljómsveitin gaf út sinn fyrsta geisladisk, Súper árið 1996, Tjútt fylgdi svo í kjölfarið árið 1997, Nákvæmlega árið 1998 og Skítamórall árið 1999. Sveitin náði strax nokkrum vinsældum með fyrstu tveimur diskunum sínum en geisladiskurinn Nákvæmlega náði að festa sveitina í sessi sem eina af vinsælustu sveitaballahljómsveitum landsins. 

Einar Ágúst Víðisson bættist í hópinn árið 1997 þegar hljómsveitin spilaði á Þjóðhátíð í Eyjum sem söngvari, áslátursleikari og gítarleikari. Geisladiskurinn Nákvæmlega, sem innihélt m.a. lagið „Farin“ sem náði miklum vinsældum og var á toppi íslenska listans í þrjár vikur árið 1998.

Í byrjun árs 2009 gekk gítarleikarinn Gunnar Þór Jónsson til liðs við hljómsveitina sem síðar sama ár hélt upp á 20 ára afmæli með tónleikum á Rúbín við Öskjuhlíð.

Þeim miðahöfum sem vilja fylgja tveggja metra viðmiði er bent á að hafa samband við miðasölu Hörpu midasala@harpa.is eða í síma 5285050 sem allra fyrst til að fá úthlutaða nýja miða. Framboð er takmarkað.

Stikkorð: Harpa  • Eldborg  • Skítamórall