*

Bílar 23. desember 2012

Skoda kemur fram með nýjan Octavia

Þetta er þriðja kynslóð þessa vinsæla bíls sem settur verður á markað snemma á næsta ári.

Skoda verksmiðjurnar í Tékklandi hafa hafið framleiðslu á nýjstu kynslóðinni af Skoda Octavia. Þetta er þriðja kynslóð þessa vinsæla bíls sem settur verður á markað snemma á næsta ári. Bíllinn verður kynntur bílablaðamönnum í lok janúar. Skoda Octavia hefur verið með vinsælustu bílum á Íslandi undanfarin ár. Óhætt er að segja að nýja kynslóðin vel heppnuð ef marka má myndir af bílnum. Nýr Octavia er byggður á sama undirvagni og nýr Volkswagen Golf og vélarnar verða þær sömu og eru í boði í Golf og Audi A3. Um er að ræða tvenns konar bensínvélar, allt að 178 hestafla og tvær dísilvélar, allt að 148 hestafla.

Nýr Octavia er stærri en forverinn og betur búinn. Þá hefur innra rýmið verið bætt talsvert frá fyrri gerð. Þá er öryggið enn meira en áður og alls níu loftpúðar eru í nýja bílnum þar af einn til verndar hnjám ökumanns. Tékkneski bílaframleiðandinn bindur miklar vonir við sölu á nýja bílnum enda er Octavia söluhæsti bíll fyrirtækisins. Þar á bæ gera menn ráð fyrir að salan verði komin í 1,5 milljón bíla árið 2018. Alls hafa Skoda verksmiðjurnar framleitt 3,7 milljónir Octavia bíla frá því að framleiðsla þeirra hófst að nýju árið 1996.

Stikkorð: Skoda Octavia