*

Bílar 6. febrúar 2015

Skoda og Citroën frumsýndir

Það bætist enn við bílaflóruna en Skoda Octavia Scout og Citroën C1 verða frumsýndir á morgun.

Róbert Róbertsson

Skoda Octavia Scout verður kynntur til leiks hjá Heklu. Bíllinn er með hærri veghæð en hefðbundinn Octavia, sterku hlífðarplasti á yfirbyggingunni og að innan með þægilegu sætaáklæði og fótstigum úr ryðfríu stáli. Auk þess er hann einstaklega rúmgóður eða með 610 lítra farangurshólfi. Skoda hefur verið sérstaklega vinsæll síðustu ár en þess má geta að á síðasta ári voru öll sölumet slegin og í fyrsta skipti í 120 ára sögu Skoda seldi fyrirtækið meira en milljón bíla á heimsvísu á einu ári.

Nýr Citroën C1 5 verður frumsýndur hjá Brimborg á sama tíma. Um er að ræða nettan borgarbíl sem er í boði með sparneytnum og umhverfismildum bensínvélum. Meðal staðalbúnaðar í C1 er loftkæling, brekkuaðstoð sem heldur við þegar tekið er af stað í halla, spólvörn, stöðugleikastýring og LED-ljós í framstuðara. Þá verður splunkunýr Renault Kadjar kynntur hjá BL á sama tíma en sagt frá honum hér á vb.is. Bílaáhugamenn ættu því að hafa nóg fyrir stafni á morgun en allar frumsýningarnar eru á milli kl. 12-16.

 

Stikkorð: Skoda  • Citroen