*

Menning & listir 28. september 2014

Sköpun í hægu ferli

Sjö alþjóðlegir myndlistarmenn sýna í nýrri sýningu í Hafnarhúsi. Sýningarstjórinn vildi sýna verk sem væru sköpuð í hægu ferli.

Kári Finnsson

Hann vefst fyrir mér titill nýrrar alþjóðlegrar samsýningar sem var opnuð um síðustu helgi í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Titillinn er „Myndun“ á íslensku, „Synthesis“ á ensku og rammar inn verk sjö listamanna víðs vegar að úr heiminum. Titlarnir vísa í tvö ólík fyrirbæri. Annars vegar ferli í mótun (Myndun) og hins vegar afrakstur einhvers ferlis (Synthesis). Þegar ég leita svara í sýningarskrá áður en ég sé sýninguna sé ég skrifað að það eina sem sameinar öll verk hennar er að þau eru „þrívíðar innsetningar samdar í rýmið“ – sem getur vísað til, þegar öllu er á botninn hvolft, alls þess sem er sett inn í herbergi hverju sinni.

Sýningin varð þó skýrari fyrir mér þegar ég ræddi við Ingibjörgu Jónsdóttur, sýningarstjóra hennar, daginn áður en hún var opnuð. „Hugmyndin kviknaði fyrir fjórum árum,“ segir Ingibjörg mér um tilurð sýningarinnar á meðan hún fjarlægir plastpoka af einu verkanna. „Þá var ég að fara til Japan og ég vildi fara með eitthvert ákveðið verkefni í farteskinu. Það hafði blundað lengi í mér að sjá saman listaverk sem væru sköpuð í hægu ferli, svona eins og að tíminn næði að setja spor sín í verkin og fylla þau af einhverri spennu og krafti. Það gerist þegar listamenn eru að vinna í langan tíma vegna þess að tíminn hefur áhrif, bæði á verkin og listamennina sjálfa.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.