*

Heilsa 23. ágúst 2013

Skráningar hrúgast inn hjá Háfit

Davíð Ingi Magnússon vann í allt sumar að því að hefja rekstur fjarþjálfunar á Netinu áður en skólarnir byrja í haust.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Skráningar byrjuðu að hrúgast inn strax í gær,“ segir Davíð Ingi Magnússon, framkvæmdastjóri Háfit. Fyrirtækið opnaði fyrir skráningar í fjarþjálfun á Netinu í gær. Auk Davíðs vinna fjórir háskólamenntaðir þjálfarar hjá Háfit. Þar á meðal er næringarfræðingurinn, veðurfréttakonan og ofurhlauparinn Elísabet Margeirsdóttir. Davíð lauk sjálfur BA -prófi frá Lagadeild Háskóla Íslands í fyrra og stundar hann nú MA-nám við sömu deild samhliða öðrum störfum, m.a. hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur

Davíð fékk hugmyndina að Háfit í vor en hugmyndin gengur út á það að útbúa fjarþjálfunarsíður fyrir nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands (HÍ). Hann vann að því í allt sumar í samstarfi við HÍ að byggja fyrirtækið upp og gera allt klárt fyrir veturinn. Davíð segir gott að byggja fyrirtækið upp innan háskólans því innan hans sé verðmæt þekking, s.s. í næringarfræði, íþróttafræðum og sjúkraþjálfun auk þess sem þar sé tæknin til staðar.

Vill hleypa fleirum að

Hjá Háfit geta þeir sem skrá sig og eru annað hvort nemendur eða starfsmenn HÍ fengið æfingaráætlun sem tekur á bilinu 20-40 mínútur, mataráætlun sem gerir ráð fyrir ódýrum mat og eru mældir. Nýjar áætlanir eru uppfærðar á sex vikna fresti og því ekki hætta á að nokkur fái leið á æfingunum. Viðskiptavinir Háfit fá jafnframt aðgang að forriti á Netinu sem gerir þeim kleift að skoða hvernig á að gera æfingarnar og fylgst með árangri sínum.

„Ég er búinn að fá margar fyrirspurnir frá fólki utan háskólans sem vill vera með. Mig langar ekki að loka dyrunum fyrir fólk sem vill ná betri árangri í líkamsrækt og er að skoða möguleika á því að hleypa fleirum að,“ segir Davíð.