*

Ferðalög & útivist 9. september 2012

Á skrifstofum leynast hörkugangnamenn

Það þarf ekki endilega að þekkja til til að geta tekið þátt í göngum og réttum. Ferðaþjónustuaðilar bjóða víða upp á gangnaferðir.

Þó sumarið sé nú að líða undir lok er ekki þar með sagt að tími helgarferða um Ísland þurfi að vera á enda. Í septembermánuði flykkjast borgarbúar gjarnan aftur til heimahaganna til að leggja lið við göngur og réttir í sínum sveitum.

Fjárréttir fara fram á mismunandi tímum á um 200 stöðum um land allt. Fyrstu hefjast nú um helgina og halda svo áfram út mánuðinn. Ólafur Dýrmundsson er ráðunautur hjá Bændasamtökunum en hann hefur tekið saman lista yfir réttir um land allt sem birtur er á heimasíðunni www.bondi.is.

„Þetta er auðvitað algjörlega einstakt,“ segir Ólafur um íslenskar réttir. „Fólk fær ekki þessa reynslu annars staðar.“ Hann bendir á að þeir sem hafi áhuga á að taka þátt í göngum geti leitað til ferðaþjónustu bænda. „Það eru nokkrir ferðaþjónustuaðilar, sérstaklega á Norðurlandi Vestra, sem hafa nú um nokkurra ára skeið tekið á móti fólki, bæði til að fara með það í göngur og eins til að fara í réttir. Útlendingar sækja mikið í þetta en líka Íslendingar,“ segir Ólafur. „Þeir sem þekkja til geta auðvitað haft samband við bændurna í sveitinni og kannað hvort þörf er á aðstoð. Það er auðvitað fjöldi aðkomufólks sem ávallt tekur þátt í réttum, jafnvel skrifstofufólk úr Reykjavík. Það bregður sér bara í bændagervi og eru margir hverjir hörkugangnamenn.“

Fyrir þá sem heldur hafa áhuga á helgarbíltúr með fjölskylduna er svo auðvitað frjálst að mæta hvenær sem er. „Það er öllum frjálst að koma í réttirnar, allir velkomnir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.