*

Bílar 30. september 2015

Skúli: „Hann hafði dáið tveimur dögum áður“

Skúli K. Skúlason á erfitt með að útskýra atvik sem henti hann síðasta haust.

Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri sölusviðs BL, er í ítarlegu viðtali við Bíla, fylgirit Viðskiptablaðsins, sem kom út síðasta fimmtudag. Þar segir hann meðal annars frá því þegar hann var blekktur af bílasala í Bandaríkjunum sem seldi honum draumabílinn, Chevrolet Camaro af árgerð '68,  í algjörri niðurníslu. Í kjölfarið eyddi hann mörgum milljónum í að gera bílinn upp.

Síðasta haust var Skúli að vinna við að ljúka heimildarmynd sem sýnd var á mbl.is þar sem hann fór ásamt eiginkonu sinni og öðru góðu fólki á mótorhjólum um 3.500 kílómetra leið um Klettafjöllin í Bandaríkjunum. Þá fann hann skyndilega mikinn kulda í herberginu.

„Mér brá við og stend upp úr stólnum og það voru einhver ósjálfráð viðbrögð að ég opna skáp beint fyrir ofan mig, en þar geymi ég hluta af kvikmyndasafni mínu. Það fyrsta sem ég sé þá er snjáð plastumslag sem var frá bílasalanum, en hann hafði sent mér gögnin eftir að ég sneri hann niður. Líklega hefur hann fengið samviskubit yfir því hvernig hann hafði farið með mig og ákveðið að senda mér gögnin, en þau sönnuðu að bíllinn var ekki frá Suðurríkjunum, þar sem bílar ryðga ekki eða a.m.k. lítið,“ segir Skúli.

„Allt í einu stirðnaði blóðið í æðum mínum“

Skúli segist ekki hafa gefið sér tíma til að skoða innihaldið á sínum tíma, en þarna hefði hann ákveðið að gera það og gleymdi hann kuldanum sem hann hafði fundið fyrir um stundarsakir.

„Þarna var þjónustusaga bílsins, ýmsar kvittanir og annað er varðaði bílinn ásamt gögnum um upprunalega kaupandann sem hafði keypt hann 1968. Ég fann hann strax á netinu, hann átti enn heima á sama stað, var 84 ára og símanúmerið fylgdi. Það var orðið mjög framorðið þannig að ég ákvað að bíða með að hringja þar til kvöldið eftir. Fullorðin kona svaraði í símann og þegar ég nefni nafn mannsins þá segir hún mér að hann sé látinn.“

Skúli segist hafa vottað konunni samúð sína. Hún sagði honum þá að hún gæti ekki talað lengur við hann og sleit samtalinu.

„Ég fer að leita aftur að nafni hans á netinu og fann ýmislegt um hann og þau hjón, en svo allt í einu er ég kominn inn á vefsíðu útfaraþjónustu. Þá blasir við mér opin gestabók á nafni hans. Allt í einu stirðnaði blóðið í æðum mínum. Ég sé þarna að hann hafði dáið tveimur dögum áður, eða daginn fyrir að ég fann fyrir kuldanum og skoðaði umslagið góða. Það er erfitt að útskýra þetta,“ segir Skúli að lokum, sposkur á svip.

Skúli er í ítarlegu viðtali í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Skúli K. Skúlason