*

Bílar 29. september 2015

Skúli: Hef eytt mörgum milljónum í bílinn

Þegar Skúli K. Skúlason fékk draumabílinn afhentan kom ýmislegt misjafnt í ljós.

Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri sölusviðs BL, er í ítarlegu viðtali við Bíla, fylgirit Viðskiptablaðsins, sem kom út síðasta fimmtudag. Þar segir hann meðal annars frá frá mörgu eftirminnilegu í störfum sínum og bílnum sem hann hafði lengi dreymt um að eignast.

Þegar hann loksins fann draumabílinn, Chevrolet Camaro af árgerð 1968, keypti hann bílinn af bandarískum bílasala og lét senda hann heim til Íslands. Spennan var í hámarki þegar Skúli fór að taka á móti bílnum ásamt syni sínum, en þegar gámurinn var opnaður kom ýmislegt í ljós. Olíupollur var undir bílnum, sjálfskiptingin lak og bíllinn var rafmagnslaus. Í kjölfarið flutti Skúli Camaro-inn austur í Fjallaland en þar hefur hann góða aðstöðu til að gera við bíla.

„Við tók 18 mánaða hörkuvinna við bílinn og ég tel að ég og aðrir sem að þessu komu höfum samtals eytt um 3.000 klukkustundum í bílinn. Þessi mikla vinna var ótrúlega skemmtileg þótt hún hafi verið gríðarlega tímafrek. Ég og Einar Skúli sonur minn höfum átt margar góðar stundir í skítagallanum undir bílnum og við að gera hann upp. Sigurður Helgi Óskarsson, sem hefur mikla reynslu af því að gera upp gamla bíla, kom reglulega í heimsókn í 18 mánuði og stjórnaði má segja verkinu.

Tveir ungir bílamálarar sem vinna hjá okkur í BL, Smári Helgason og Reynir Örn Harðarson, máluðu bílinn og er óhætt að segja að málningin sé algjört listaverk. Bíllinn lítur út eins og nýr. Ég hef eytt mörgum millj­ónum í bílinn en ég sé ekki eftir því. Ég er búinn að setja í hann nýja fjögurra gíra skiptingu en hann var með einungis tveggja gíra skiptingu í upphafi,“ segir Skúli.

Ekki hættur

Camaro-inn er 330 hestöfl og læstur að aftan. Skúli segist ekki vera hættur. „Ég ætla að setja í hann 400 hestafla LS 2 vél einhvern tímann og nútíma fjöðrun. Hann er gríðarlega skemmtilegur og raunar alger gullmoli. Það er gaman að taka „burnout“ á honum,“ segir Skúli með prakkarasvip.

Hann segist hafa gaman af áskorunum og skorist ekki undan ábyrgð ef hann tekur eitthvað að sér. „Sumir segja að ég sé þrjóskur sem er líklega alveg rétt. Margir vinir mínir höfðu ekki mikla trú á að ég myndi klára þetta þegar þeir sáu bílinn sundurtættan á grillteini. En þetta hafðist með hjálp góðra manna. Einn góður vinur minn sagði einhvern tímann að Camaro-inn hefði verið heppinn að Skúli hafi keypt hann og var þá að vísa til þrjósku minnar.“

Skúli er í ítarlegu viðtali í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Skúli K. Skúlason