*

Hleð spilara...
Sport & peningar 19. júní 2013

Skúli Mogensen: Ég kemst ekki undan þessu

Ræst var í hjólreiðakeppni WOW Cyclothon klukkan 18 í dag. Hjólað verður hringinn í kringum landið.

Haraldur Guðjónsson
 - hag@vb.is

„Ég kemst ekki undan þessu,“ segir Skúli Mogensen, brosmildur í hjólagallanum þegar VB sjónvarp hitti á hann við Hörpuna í dag rétt áður en ræst var í WOW Cyclothon-hjólreiðakeppnina klukkan 18. Skúli segir tilurð keppninnar þá að hann hafi lengi ferðast um heiminn í leit að ævintýrum. Á endanum hafi hann ákveðið að leita ekki langt yfir skammt enda fyrirtak að efna til hjólreiðakeppni í kringum landið. Þetta annað árið sem keppnin er haldin og hefur Skúli, sem er forstjóri Wow air, tekið þátt í bæði skiptin.

Um 200 manns eru skráðir til keppninnar þar af nokkrir landsliðsmenn og konur frá Bretlandi.  Í A-flokki keppa 18 fjögurra manna lið en í B-flokki sjö tíu manna lið. Í keppninni er safnað áheitum til styrktar Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

„Ég vona að þetta verði fastur liður og auki áhuga fólks á hjólreiðum og heilsusamlegu líferni,“ sagði Skúli.

Haraldur Guðjónsson, ljósmyndari Viðskiptablaðsins, var á staðnum og smellti myndum af keppendum áður en þeir lögðu af stað.