*

Menning & listir 6. nóvember 2012

Skyfall þénar vel fyrstu dagana

Nýjasta James Bond myndin hefur ekki enn verið sýnd í Bandaríkjunum en hefur þegar halað inn 287 milljónum dala.

Skyfall, nýjasta kvikmyndin um James Bond, er nú á góðri leið með að verða ein tekjuhæsta breska kvikmynd frá upphafi ef fer sem horfir. Tekjur af sýningu myndarinnar námu 287 milljónum dala fyrstu tíu dagana sem myndin var sýnd.

Breska blaðið The Guardian bendir þó á það í dag að enn eigi eftir að frumsýna myndina í Bandaríkjunum, sem er stærsti kvikmyndamarkaður heims, en hún verður frumsýnd þar á fimmtudaginn nk.

Fyrsta James Bond myndin með Daniel Craig í hlutverki þessa frægasta njósnara hennar hátignar, Casino Royal, gekk mjög vel í kvikmyndahúsum og námu tekjurnar af henni tæplega 600 milljónum dala.

Í Bretlandi er Skyfall nú þegar orðinn vinsælli, í tekjum talið, en Batman myndin the Dark Knight Rises og The Avengers. 

Stikkorð: James Bond  • Skyfall