*

Hitt og þetta 21. nóvember 2005

Skýrr og FMR semja um tölvurekstrarþjónustu

Hreinn Jakobsson forstjóri Skýrr hf. og Haukur Ingibergsson forstjóri Fasteignamats ríkisins hafa undirritað aðilaskiptasamning um að Skýrr taki við tölvurekstrarþjónustu fyrir Fasteignamat ríkisins vegna Landskrár fasteigna.

Í frétt á heimasíðu Fasteignamatsins kemur fram að þessi tölvurekstrarþjónusta var upphaflega boðin út árið 2001 og varð ANZA hf. þá hlutskarpast en tölvureksturinn fer fram á Akureyri. Árið 2003 fluttist þessi þjónusta til Skrín hf. er fyrirtækið keypti starfsstöð ANZA á Akureyri. Við samruna Skrín og Skýrr í haust færðist þjónustan til Skýrr og fer hún fram á starfsstöð Skýrr á Akureyri.

Meginþættirnir í tölvurekstrarþjónustu Skýrr eru hýsing og rekstur gagnagrunnsþjóns fyrir Landskrá fasteigna með viðeigandi vöktun og þjónustu allan sólarhringinn alla daga ársins. Í því felst meðal annars að tryggja sífellt aðgengi að kerfinu og skránni, veita tæknilega notendaþjónustu fyrir viðskiptavini Landskrár fasteigna, sjá um afritun og varðveislu afrita, reka gagnalínu ásamt eldvegg á milli Internets og skrárinnar, reka leigulínu ásamt endabúnaði milli skrifstofu Fasteignamatsins á Akureyri og Skýrr og leggja til samband við Landskrá fasteigna fyrir þá sem tengjast skránni um Internetið. Auk þessa er Skýrr einn af smásölum upplýsinga úr þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna.