*

Bílar 17. nóvember 2019

Skytturnar þrjár

Breski bílaframleiðandinn Jaguar var fyrstur fram á sjónarsviðið með 100% rafknúinn lúxus sportjeppa.

Þýsku lúxusbílaframleiðendurnir Audi og Mercedes-Benz svöruðu þessari áskorun Jaguar með því að koma fram með sína rafmagns lúxussportjeppa. Audi kom fram með e-tron og Mercedes-Benz með EQC.

Þessir þrír sportjeppar hafa allir fengið gríðarlega athygli um heim allan og ekki skrítið þar sem um er að ræða glæsilega bíla með frábæra aksturseiginleika og auk þess 100% rafknúna með engan útblástur. Þessir þrír bílar eru um margt mjög sambærilegir hvað varðar drægni og verð. Þeir voru í þremur efstu sætunum í valinu á Bíl ársins hér á Íslandi á dögunum en það er Bandalag íslenskra bílablaðamanna sem stendur fyrir valinu. Jaguar I-Pace varð hlutskarpastur og sigraði í keppninni og hlýtur sæmdarheitið Bíll árisns á Íslandi 2020. Skammt undan kom Audi e-Tron í öðru sæti og Mercedes-Benz EQC hafnaði í því þriðja. Sportjepparnir þrír voru teknir í reynsluakstur í Bláfjöllum og nágrenni í tengslum við valið á Bíl ársins á dögunum. Við ákváðum að gera smá samanburð á þeim þar sem kemur fram að mjög margt er líkt með þeim. Allir sportjepparnir þrír eru fjórhjóladrifnir og allir með góða hleðslumöguleika, hvort heldur er í heimahleðslu eða sérstökum hleðslustöðvum. Þeir hafa allir mjög svipaða aksturseiginleika og vart má á milli sjá í þeim efnum. Þá eru þeir allir hlaðnir lúxus í innanrýminu.

I-Pace hraðastur í hundraðið
I-Pace er með tvo rafmótora sem skila 90 kW eða 400 hestöflum og togið er 700 Nm. I-Pace er aðeins 4,8 sekúndur að ná 100 km hraða úr kyrrstöðu og er sneggstur upp af sportjeppunum þremur. I-Pace hefur einnig mestu drægnina af þeim þremur eða alls 470 km samkvæmt WLTP prófunum. Hann er líka minnstur af þeim og léttastur. Dráttargetan er samt 1.800 kg sem er sama og hjá etron og EQC.

I-Pace er fallega hannaður og afar tæknilega fullkominn rafbíll. Sportleg og straumlínulöguð hönnunin er flott með lækkandi þaklínu. Framgrillið er kraftalegt og mjó LED ljósin eru lagleg. Brettakantarnir eru nokkuð afgerandi en passa vel við flæðandi miðlínu bílsins. Hönnuðir bílsins unnu markvisst að því að straumlínulögunin drægi úr loftviðnámi til að ná sem mestri drægni og stöðugleika í bílnum. Árangurinn er sá að loftnámsstuðullinn er aðeins aðeins 0,29 d. miðstokknum.

Miðstokkurinn er flæðandi með fleiri tökkum sem stýra aðgerðum í bílnum. Maður ýtir einfaldlega á takka til að setja bílinn í gíra, D, R, N, P. Þetta ný nálgun og skemmtileg. I-Pace er með tveimur snertiskjáum. Touch Pro Duo-upplýsinga- og afþreyingarkerfið í bílnum samanstendur af 10“ snertiskjá sem felldur er inn í mælaborðið og neðri 5“ snertiskjá með fjölnota mælum. Þar hefur ökumaður og farþegar aðgang að nýjustu upplýsingum og afþreyingu og hægt er að samhæfa flesta Apple og Android snjallsíma við bílinn.Verðið á IPace er frá 9.790.000 kr í grunnútgáfu en dýrasta útgáfan kostar 11.990.000 kr.

Stór og stæðilegur Audi e-tron
Audi e-tron 55 quattro er stærstur og þyngstur af þessum þremur sportjeppum. Hann er með tvo rafmótora sem skila 300 kW í afli eða 402 hestöflum og togið er 664 Nm. Bílinn er 5,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Dráttargeta bílsins er 1.800 tonn. Rafrænt aldrifið stuðlar að mjög góðum aksturseiginleikum og veitir auk þess mjög gott veggrip við öll skilyrði. Audi e-Tron stendur sig prýðilega í utanvegaakstri. Hægt er að kveikja á quattro drifinu þegar þess er óskað og það veitir sérstaka dreifingu á togi, sveigjanleika í stýringu á öxlunum og gerir aksturinn skemmtilegan á hvaða undirlagi sem er. Audi etron er með drægni yfir 400 km samkvæmt WLTP staðlinum.

Audi e-tron er afar fallega hannaður sportjeppi og endurspeglar grunnatriðin í hönnun Audi á öld rafbílsins; bæði að innan sem að utan. Línurnar eru kraftalegar og bíllinn stæðilegur á velli enda er hann stærstur sportjeppanna þriggja. Sérstakur dagljósabúnaður, rafhleðslulok, engin útblástursrör, saumar í sætum sem minna á rafmagnstöflu, allt eru þetta einkennandi smáatriði í hönnuninni sem gefa bílnum sinn sérstaka blæ. Bíllinn er fallegur að innan og mjög tæknivæddur. Gírstögnin er mjög nýstárleg og tekur smá tíma að átta sig á henni en þegar maður venst henni þá er hún bráðsnjöll og töff.

Hægt er að fá myndavélar í stað hliðarspegla sem er ansi magnað. Lítil myndavél varpar stafrænum myndum á háskerpu OLED skái á milli hurða og mælaborðs. Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á svona í bíl í almennri sölu. Vel skipulagt mælaborðið er með lóðréttum línum í stíl við dyralistana. Hlífin fyrir ofan Audi sýndarstjórnrýmið er frístandandi sem og skjáirnir sem birta ytri sýndarspegla en þetta er valbúnaður. Audi e-tron 55 quattro kostar frá 9.790.000 kr en í dýrustu útfærslu Design Plus kostar hann 12.990.000 kr. Hann er því dýrastur þeirra þriggja.

Tæknivæddur EQC
EQC er fyrsti hreini rafbíllinn í nýrri EQ línu Mercedes-Benz sem kemur á markað og hefur hans verið beðið með mikilli eftirvæntingu allt frá því hugmyndabíllinn EQ var kynntur í París fyrir þremur árum. EQC er byggður á sportjeppanum GLC en um 85% af bílnum er þó glænýtt úr smiðju Mercedes-Benz.

Uppgefin drægni EQC er 401- 417 km samkvæmt WLTP staðli en hún getur verið mismunandi eftir búnaði bílsins. Bíllinn er með tveimur rafmótorum sem eru samtals 300 kW sem skilar bílnum 402 hestöflum og 760 Nm í togi. Dráttargeta sportjeppans er allt að 1,800 kg. EQC er með krafta í kögglum og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 5,1 sekúndu. EQC er með mesta togið og er næst fljótastur upp á eftir I-Pace en á undan e-tron. EQC er framúrstefnulegur og fallegur í hönnun. LED aðalljósin og grillið að framan eru sameinuð í eina heild og gefur það bílnum flott og dáltíð tæknivætt yfirbragð. Bláar skrautlínur og ljósahönnun á bílnum er aðalsmerki EQ línu þýska lúxusbílaframleiðandans. Þaklínan er aflíðandi og gefur bílnum svolítið sportlegt coupé útlit en er um leið kraftalegt.

Í innanrými EQC er nokkuð framúrstefnulegt rafmagnsútlit en skapar samt þægileg áhrif, sérstaklega þar sem hægt er að lýsa rýmið upp á stílhreinan hátt sé þess óskað með sértakri stemmningslýsingu. Hægt er að velja úr 64 einstökum litum og mörgum litasamsetningum og litaáhrifum. Umhverfis einkennandi lofttúður með EQhönnun eru málm galvaníseraðir fletir. Stafrænn mælaborðsskjárinn og margmiðlunarskjárinn eru hvor um sig 26 cm (10,25“) á stærð og eru sameinaðir í Widescreen-stjórnrými bílsins. Einstaklega nútímaleg hughrif og gæði. Upplýsingarnar birtast í hárri upplausn og í lit með vönduðum hreyfimyndum. Innihaldinu má raða upp eftir óskum og stjórna bæði með snertingu og raddstýringu.

EQC er mjög tæknivæddur með hinu nýja og háþróaða MBUX margmiðlunarkerfi og í innanrými bílsins er vandað til verka hvað varðar búnað, þægindi og efnisval. EQC er með nýjustu aksturs- og öryggiskerfi frá Mercedes-Benz. Þrjár útfærslur verða í boði af EQC með mismunandi búnaði. EQC kostar frá 9.290.000 kr í grunnútgáfu en dýrasta útgáfan kostar 11.450.000 kr. EQC er því samkvæmt verðlistum umboðanna ódýrastur sportjeppanna þriggja.