*

Veiði 7. júlí 2018

Slepptu 20 þúsund löxum

Samkvæmt skýrslu Hafrannsóknarstofnunnar veiddu stangaveiðimenn 46.656 laxa í fyrra.

Trausti Hafliðason

Ný skýrsla Hafrannsóknastofnunar um lax- og silungsveiði árið 2017 er komin út. Samkvæmt henni veiddu stangaveiðimenn 46.656 laxa í fyrra.

Árið 1974 var byrjað að taka saman tölur yfir stangaveiði í íslenskum ám. Meðaltalslaxveiði frá þeim tíma er 41.991 lax á ári. Veiðin núna var því nokkuð yfir því meðaltali. Rétt fyrir aldamót fór laxveiði í hafbeitarám, eins og til dæmis Ytri- og Eystri-Rangá, virkilega að telja í heildartölum. Þess vegna er eðlilegt að miða við þann tímapunkt. Meðaltalið frá aldamótum er 51.258 laxar og var veiðin í fyrra því 9% undir því meðaltali.

Þrátt fyrir að laxveiðin í fyrra hafi ekki verið sérlega góð þá fer árið 2017 alls ekki í annála fyrir að hafa verið mjög slæmt laxveiðiár. Skemmst er að minnast þess að árið 2012 veiddust tæplega 34.800 laxar í íslenskum ám og árið 2014 veiddust um 33.600 laxar. Sem fyrr trónir árið 2008 á toppnum sem besta laxveiðiár frá því að mælingar hófust. Þá veiddust ríflega 84 þúsund laxar á Íslandi. Veiði í hafbeitarám hafði mikið að segja því af heildarveiðinni veiddust rúmlega 29 þúsund laxar í slíkum ám. Til samanburðar veiddust ríflega 11.200 laxar í hafbeitarám á síðasta ári.

42,2% laxa var sleppt

Veiða og sleppa-fyrirkomulagið hefur náð fótfestu á Íslandi. Í fjölmörgum ám er kvóti og þá eru mörg veiðifélög með þá reglu að sleppa þurfi öllum stórlaxi, sem er þá lax sem mælist 70 sentímetrar á lengd eða meira. Þetta hefur haft þau áhrif að í fyrra slepptu veiðimenn tæplega 19.700 löxum aftur út í á. Hlutfall sleppinga af heildarveiðinni var 42,2% og hefur einungis einu sinni verið hærra en það var árið 2016 þegar þetta hlutfall var 42,7%.

Í fyrra var alls 32,9% smálaxa sleppt en smálax er lax, sem dvelur eitt ár í sjó áður en hann gengur aftur upp í á. Alls var 73,2% stórlaxa sleppt en stórlaxar eru laxar sem dvelja tvö ár í sjó áður en þeir ganga upp í á. Til gamans má geta þess að árið 1996 var 2,3% laxa sleppt en frá þeim tíma hefur þetta hlutfall hækkað, að svo má segja, ár frá ári.

Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, er jákvæður í garð veiða og sleppa-fyrirkomulagsins.

„Miðað við þær tölur sem við höfum í dag þá hefur stórlaxi fjölgað undanfarin ár," segir Guðni. „Innan tíðar munum við eiga nægilega mikið af talnagögnum til að geta greint árangurinn af þessu fyrirkomulagi almennilega. Nýlegar erfðafræðilegar upplýsingar sýna að ástæðan fyrir því hvort lax er eitt eða tvö ár í sjó erfist á einu geni. Erfðafræðingar segja mér að miðað við það hversu hátt veiðiálag hafi verið á stórlaxinum þá sé hægt að hafa áhrif á erfðasamsetninguna á mjög stuttum tíma."

Eins og gefur að skilja er hlutfall slepptra laxa mun lægra í hafbeitarám en náttúrulegum ám. Er það vegna þess að í hafbeitarám byggir veiðin á sleppingu gönguseiða, þar sem náttúrulegar aðstæður til hrygningar eru ekki góðar. Þegar hlutfall sleppinga í náttúrulegum ám er skoðað kemur í ljós að það hefur verið yfir 50% síðustu tvö ár. Í fyrra var það 51,4% og árið 2016 var það 54,1%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Veiði  • lax  • silungur  • Hafró