*

Ferðalög 6. maí 2017

Á slóðum Galla og Rómverja í Lyon

Það verður enginn svikinn af því að heimsækja hina fallegu og líflegu borg Lyon sem stendur við ármót Saone og Rhône í austanverðu Frakklandi.

Róbert Róbertsson

Lyon er þriðja stærsta borg Frakklands og höfuðstaður héraðsins Rhône-Alpes. Borgin er frægust fyrir aldagamlan silkiiðnað og góðan mat enda talin vagga franskrar matargerðarlistar.

Lyon er fyrrum höfuðborg hinnar fornu Gallíu sem um alllangan tíma var undir stjórn Rómaveldis. Borgin var stofnuð árið 43 f.kr. og hét þá Lugdunum. Hún var Rómverjum mikilvæg bæði í hernaðarlegum tilgangi sem og viðskiptalegum enda stóð hún á mikilvægum ármótum og þaðan lágu vegir til allra átta. Lyon var síðar höfuðborg ríkis Búrgúnda á 5 til 7. öld.

Leynistræti og litríkt mannlíf

Það er gaman að ganga um götur þessarar fögru borgar þar sem líflegt mannlífið tekur vinalega á móti manni. Það er auðvelt að ímynda sér að hér hafi Ástríkur og Steinríkur verið á ferli fyrir langalöngu ásamt öllum hinum Göllunum og gert Rómverjum lífið leitt. Gamli bærinn afmarkast af vesturbakka Saône og Fourvière hæðinni. Litríkar og fagrar byggingar, líflegir veitingastaðir og skemmtilegar verslanir setja mikinn svip á borgina. Mörg húsin meðfram Rhône í eystri hluta gamla bæjarins eru mjög falleg og virðuleg frá 16. og 17. öld og voru í eigu efnaðra silkikaupmanna. Margar byggingar í gamla bænum eru á heimsminjaskrá UNESCO og þar af leiðandi friðuð. Eitt það athyglisverðasta við Lyon eru dularfullu leynistrætin, les traboules. Maður rambar á þau meira af tilviljun með því að opna venjulega hurð og er maður þá skyndilega komin í litla og sjarmerandi leynigötu. Við enda hennar er svo önnur hurð sem leiðir mann út í aðra götu. Sum þessara leynistræta eru opin almenningi en önnur ekki. Þá eru hurðirnar einfaldlega læstar.

Fögur torg og garðar

Place Bellecour er eitt stærsta torg Frakklands og þar er stytta af Lúðvík 14. á hestbaki. Ráðhúsið er að hluta til frá dögum Lúðvíks 13. Beint yfir inngangi þess er lágmynd af Hinrik 4. á hestbaki. Place des Terraux er framan við ráðhúsið með fögrum hestum skreyttum gosbrunni. Þúsundir íbúa Lyon voru hálshöggnir þar í frönsku byltingunni árið 1789 en borgarbúar voru flestir andsnúnir Robespierre og ógnarstjórn Jakobína og studdu þess í stað Gírondína.

La Croix Rousse er afar skemmtilegt hverfi í hæðunum norðan af Terreaux torginu. Þar má finna skemmtilegan matarmarkað við Boulevard de la Croix Rousse. Garðurinn í Musée des Beaux Arts er afar fallegur og skemmtilegur og þar gaman að fara í piknikk. Borgin er fræg fyrir ljósahátíð sína, Fête des Lumières, sem haldin er í byrjun desember ár hvert. Ljósahátíðin hefur verið haldin árlega frá 1852. Hún er einnig þekkt fyrir að vera heimaborg Lumière bræðra sem voru frumkvöðlar á sviði ljósmyndunar og kvikmyndunar.

Lyon stendur framarlega á sviði tækni- og hugvits. Háskólinn í borginni er mjög virtur og þar er mikil áhersla lögð á læknavísindi. Mikill knattspyrnuáhugi er í borginni og knattspyrnulið Lyon er í fremstu röð í frönsku úrvaldsdeildinn. Nýr og glæsilegur knattspyrnuleikvangur var byggður fyrir EM í Frakklandi á síðasta ári. Íslendingar léku reyndar ekki neinn leik þar síðasta sumar en léku við Portúgali í St. Etienne sem er í nágrenni Lyon. Margir Íslendingar, sem fóru á leikinn gegn Portúgal, gistu einmitt í Lyon.

Rómverska leikhúsið

Rómverjar byggðu mikla virkisborg í Lyon eða Lugdunum eins hún hét á tímum Rómaveldis. Rómverska leikhúsið í hæðunum fyrir ofan borgina er spennandi viðkomustaður fyrir ferðamenn og þar er einnig merkilegt safn sem hýsir ýmsar rómverskar minjar. Hafist var handa við að byggja leikhúsið árið 15 f.kr og það hýsti alls 10 þúsund manns.

Árleg listahátíð í borginni, Nuits de Fourviére, er haldin í rómverska leikhúsinu og þar eru haldnar sýningar á sorgarleikjum. Auk þess eru haldnir ýmsir tónleikar í leikhúsinu sem rúmar enn mikinn fjölda fólks á gömlum steinbekkjunum. Rústir rómverks hofs má sjá í næsta nágrenni leikhússins og minna á borgina Lugdunum.

Borg fyrir matgæðinga

Fyrir áhugamenn um matargerð er Lyon rétti staðurinn enda er borgin heimsþekkt fyrir veitingastaði sína og matreiðslumeistara. Fremstan í flokki er líklega Paul Bocuse og veitingastaðinn hans L´Auberge du Pont de Collonges sem ber þrjár Michelin stjörnur með stolti.

Lyon er þekkt fyrir Les Bouchons sem er ákveðin gerð af veitingastöðum þar sem matargerð heimamanna er í aðalhlutverkinu. Þetta eru yfirleitt mjög litlir veitingastaðir sem bjóða upp á ýmislegt frumlegt eins og innyfli, svínsfætur og kálfshöfuð. Þótt þetta kunni að hljóma illa þá er maturinn yfirleitt algert lostæti. Au 14 Fevrier Vieux Lyon er dæmi um mjög góðan slíkan veitingastað en hann er vinsæll og þörf er að panta þar með góðum fyrirvara enda tekur staðurinn aðeins 15 manns í sæti.

Notre Dame de Fourviére

Basilíkan Notre Dame de Fourviére stendur tignarleg á hæð fyrir ofan borgina. Þetta er falleg og mikil kirkjubygging sem byggð var á 19. öld. Kirkjan er frábær útsýnisstaður yfir borgina og þar má sjá langar leiðir yfir nærliggjandi sveitir. Á hæðinni Fourviére var fyrst rómversk byggð og virki. Á fyrri hluta miðalda var byggð þar kirkja og þar var viðkomustaður pílagríma á leið til Jerúsalem. Krossafarariddarar höfðu þar viðkomu á leið sinni til landsins Helga þar sem þeir börðust við Mára. Notre Dame de Fourviére er tileinkuð Maríu mey sem heimamenn telja að hafi hjálpað ómetanlega þeim í baráttunni við Svarta dauða.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is