
„Bókin um Hrímfaxa er skrifuð að undirlagi Lárusar Karls Ingasonar, ljósmyndara og útgefanda bókarinnar, sem leitaði til mín með milligöngu Sigurðar Svavarssonar, ritstjóra bókarinnar. Faðir Lárusar Karls var í hópi þeirra sem létust í slysinu 1963. Hann hafði lengi gengið með þá hugmynd í maganum að gefa út bók um þennan atburð og ákvað að láta verða að því nú þegar 50 ár voru liðin frá slysinu,“ segir Bergsteinn Sigurðsson.
Bergsteinn starfaði sem blaðamaður á Fréttablaðinu í níu ár áður en hann tók að sér umsjón Morgunútvarps Rásar tvö í haust. Með fram blaðamennsku hefur hann þýtt nokkrar bækur og skrifaði ásamt Birni Þór Sigbjörnssyni bókina Ísland í aldanna rás 2001-2010, sem kom út á vegum Forlagsins í fyrra.
Bergsteinn þekkti ekki mikið til málsins þegar Sigurður leitaði til hans snemma á þessu ári.
„Ómar Ragnarsson, einn viðmælenda bókarinnar, segir Hrímfaxaslysið vera „slysið sem gleymdist“. Ég held að það sé hárrétt metið hjá honum; þeir sem voru komnir til vits og ára þegar slysið varð muna vissulega eftir því en ég held að við sem yngri séum höfum ekki nema óljósa hugmynd um það. Það var enda eitt af markmiðum Lárusar Karls að halda þessum harmleik til haga og láta hann ekki falla í gleymskunnar dá.“
Nánar er talað við Bergstein og fjallað um bókina Hrímfaxa í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.
Hér má sjá forsíðu bókarinnar.