*

Heilsa 19. apríl 2013

Smá stress er gott fyrir heilann

Komið hefur í ljós að smá stress öðru hverju er gott fyrir heilsuna og hefur góð áhrif á minnið.

Næst þegar einhver segir þér að slaka á þegar þú æsir þig þá skaltu benda viðkomandi á þessa grein á Forbes. Þar kemur fram að ef fólk er tiltölulega rólegt yfirhöfuð en stressast upp annað slagið þá hafa nýjustu rannsóknir sýnt að slíkt sé hollt fyrir heilann. 

Þegar fólk stressast skyndilega upp myndar heilinn nýjar frumutengingar. Þessar frumutengingar myndast á tveimur svæðum í heilanum, annars vegar þar sem minnið er og hins vegar á svæði sem er viðkvæmt fyrir stressi.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að smá stress, endrum og eins, sé heilsusamlegt en þessi nýja rannsókn er sú fyrsta sem sýnir fram á myndun nýrra frumutenginga.

En það er ekki gott að vera alltaf stressaður. Krónískt stress hefur slæm áhrif á líkamann og heilann. Það hindrar heilann í að mynda nýjar frumutengingar og því hefur það slæm áhrif á minnið. Einnig geta sjúkdómar eins og hjartasjúkdómar, krabbamein, þunglyndi og svefnvandamál komið upp hjá fólki sem er krónískt stressað. 

Stikkorð: Heilsa  • heilinn  • Stress