*

Tölvur & tækni 9. maí 2014

Smávélin frá Canon virkar eins og risi

Ljósmyndari Viðskiptablaðsins prófar Canon PowerShot G16.

Haraldur Guðjónsson
 - hag@vb.is

Í flokki smávéla myndi myndavélin Canon G16 flokkast sem stór myndavél. Hún er samt en nógu smá til að passa í vasa  ef maður hefur hana um hálsinn. Hún fellur líka vel að í vasanum þar sem linsan dregst inn í hana. Það gerir hana að aðlaðandi kosti.

Pínulítill risi

Farsímar hafa að mestu yfirtekið þörf manna á litlum myndavélum, en þeir eru mjög takmarkaðir fyrir þá sem eru vanir því að geta stillt myndavélina eftir aðstæðum. Jafnvel þótt það sé yfirleitt hægt, þá er það flókið og tímafrekt. Canon G16 er myndavél sem mætir þessari þörf. Vélin býr yfir flestu því sem prýðir stóra SLR-vél. Sömu takkar eru til staðar á henni og stóru vélunum auk þess sem hún er með skynjara sem er töluvert  stærri en í farsímum og nokkuð stærri en í venjulegum smámyndavélum.

Tiltölulega auðvelt er að stilla bæði ljósop og hraða. Vélin er auk þess með sérstakan takka fyrir ljósnæmni , kerfin eru einföld og aðgengileg. Eini gallinn á stjórntækjunum er sá að í skrunhjólinu aftan á vélinni gerist það gjarnan að maður ýtir óvart á eitthvað annað en maður ætlar. Ástæðan fyrir þessu er sú að hjólið þjónar tvennu, það er bæði hjól og fjórir takkar. Þetta venst þó fljótt. 

Fyrir mér sem ljósmyndara skiptir View-finder (WF) máli. Eftir því sem skjáir á myndavélum hafa stækkað hefur þeim vélum fækkað sem bjóða upp á slíkt. Það er miður enda gefur það ljósmyndaranum færi á að ramma betur viðfangsefnið inn og heldur myndavélinni mun stöðugri. Þessi  Þessi WF er þó ekki nákvæmur, hann dekkar aðeins 80% af myndinni sem myndavélin sér og því fær maður víðari mynd en maður sér. Þetta venst þó fljótt. 

Flott myndgæði

Myndgæðin í vélinni eru mjög góð miðað við stærð. Ég nota bara RAW format. Og miðað við stærðina á vélinni er í raun magnað hvað er hægt að vinna mikið með myndirnar. Vélin stenst að sjálfsögðu ekki samanburð við EOS 5D Mark III vélina sem ég nota venjulega í vinnunni en stenst vel samanburðinn við SLR myndavélar með minni skynjurum.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út s.l. fimmtudag eru þrjár myndasíður sem eru eingöngu teknar á þessa myndavél. Aðstæðurnar eru frekar erfiðar, baklýsingin mikil og ljósið lítið. Það sést vel á því hversu vel er hægt að ná upp úr skuggum á myndunum á myndasíðunum.

Á vélinni er  lítið flass sem er glettilega sterkt á myndini hér að neðan er hægt að sjá hversu vel það gerir á móti sól. Á vélinni er líka flass-skór sem býður upp á þann möguleika að setja stæra flass á hana. Það verður samt að segjast, að mér finnst skrítið þegar flassið er miklu stærra en myndavélin. Þetta opnar samt á þann möguleika að nota fjarstýrt flass og því hægt að taka flott uppstillt portret 

Innbyggð linsa

Linsan á vélini er innbyggð og er ekki hægt að skipta henni út. Það er vissulega ákveðinn galli. Það er þó hægt að fá á þessar vélar viðbótarlinsur sem eru settar yfir linsuna og gerir hana annað hvort víðari eða þrengri. Áfasta linsan er líka með mjög stórt ljósop eða 1,8 á víðari endanum og 2,8 á þeim lengri og með innbyggðri hristivörn sem fer sjálfkrafa á þegar maður fer á hægan lokhraða. Það er frábær kostur. 

Það er í raun annar flokkur myndavéla sem býður upp á útskiptanlegar linsur. Canon EOS M og Fuji X vélarnar eru þar fremstar meðal jafningja. Þær eru hins vegar bæði töluvert dýrari og stærri auk þess sem leiðinlegra er að grípa myndavél með stórri linsu með sér þegar maður þarf að stökkva á flandur. Svo ég tali nú ekki um hjólatúr enda vonlaust að fara á svoleiðis flakk með stóra græju. 

Canon G16 býður notendum upp á flest það sem aðrar myndavélar prýðir. Með henni er t.d. hægt að taka upp myndskeið. En lítið er í raun um það að segja annað en að mjög einfalt er að skipta á milli ljósmyndatöku og myndskeiða. Vél sem þessi  hentar fremur í kyrrar tökur. Í fréttinni Heimar í heimi á vef Viðskiptablaðsins má sjá skot úr vélinni. Skotin næst listaverkinu eru tekin með vélinni.

Eitt er þó vert að nefna sem heillar sjálfsagt marga en þessi myndavél er með innbyggt WiFi sem gerir manni kleift að tengja hana við snjallsíma þurfi maður að koma myndunum sínum með hraði á alnetið.  

Í hnotskurn

Þessi myndavél hentar öllum þeim sem hafa gaman að ljósmyndun en hafa ekki snert SLR myndavélina sem þau keyptu 2005 vegna þess að hún er of fyrirferðamikil og pirrast á því hversu farsímar eru takmarkaðir við myndatöku. Á sama tíma geta þeir sem alltaf eru með stillt á Auto gleymt þessari vél og keypt sér aðra. Þetta er græja, smá en ótrúlega kná. Eftir að hafa haft þessa vél í viku þá er ég orðin mjög vanur að handleika hana enda er ég alltaf með hana við hendina. En svo er það spurning um verðið, sem einhverjir gætu sett fyrir sig. Vélin kostar 99 þúsund krónur hjá Nýherja.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru við ýmsar aðstæður.

Margar myndavélar hafa lengri linsur en Canon G16. Það er yfirleitt á kostnað myndgæða. Þessi mynd hér er tekin á fullum aðdrætti. Hún heldur ljósopinu 2,8 í fullum aðdrætti.

Þessi mynd er tekin við stofulýsingu. Takið eftir að hér var ekki notað flass

Hér má sjá hversu kraftmikið í raun litla flassið á myndavélinni er á myndavélinni. Sólin er rétt utan við ramma fyrir aftan stúlkuna. Himinn er rétt lýstur og flassið lýsir andlit stúlkunnar.

Smávélin er fljót að bregðast við og er góð að fókusa. Það er nauðsyn við krefjandi aðstæður eins og þessar. Ég var á hjólinu fyrir framan, sneri hendinni aftur og tók myndina á fullri ferð.

Þessi mynd er hluti af myndasíðu sem í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Allar myndirnar á myndasíðum blaðsins voru teknar á smávélina frá Canon.

Stikkorð: Canon  • Canon G16