*

Hitt og þetta 9. febrúar 2020

Gates á 80 milljarða vetnissnekkju

Bill Gates lætur smíða 112 metra, 80 milljarða króna, vetnissnekkju. Þar verður að finna sundlaugar, þyrlupall og líkamsræktarstöð.

Bill Gates, stofnandi Microsoft, lætur nú smíða fyrstu vetnisknúnu snekkju heims. Hún á að kosta um 644 milljónir dollara, um 80 milljarða í smíðum og ekki er búist við því að hún verði tilbúin fyrr en árið 2024. The Guardian greinir frá. 

Snekkjan verður 112 metra löng með fimm þilför. Á henni verður meðal annars hægt að finna úti- og innisundlaug, líkamsræktarstöð, jógastúdíó, þyrlupall og rými fyrir 31 áhafnarmeðlimi og 14 gesti. 

Gates, hefur oft leigt snekkjur í gegnum tíðina en ekki átt eigin snekkju fyrr en nú. Hann fór til að mynda í frí á 40 milljarða snekkju rússnenska auðkýfingsins Yuri Scheffler, eiganda Stolichnaya vodkans.

Eitt af baráttumálum hans er að heiminum takist að finna leiðir til að nýta endurnýjanlega orkugjafa í meira mæli. The Guardian segir að hægt sé að horfa á snekkjusmíðin í því ljósi. 

Hægt á að vera að sigla á milli New York og London á snekjunni með vetni sem eina aflgjafann. Á snekkjunni verður þó varamótor knúin díselolíu. Ástæðan mun vera að svo fáar vetnishleðslustöðvar séu í heiminum. 

Gates, sem er næstríkasti maður heims, og á um 118 milljarða dollara. Hann hefur heitið því að gefa megnið af auðæfum sínum til góðgerðarmála. Han gaf 100 milljónir dollara í liðinni viku til að berjast gegn kóróna vírusnum. 

Stikkorð: Bill Gates  • snekkja  • auðmenn